Orkumálinn 2024

Reyna að koma öllum pökkum til skila fyrir jól

Drekkhlaðnir flutningabílar bíða bæði á Austurlandi og Suðurlandi eftir að geta farið á milli til að koma gjöfum og vörum til skila fyrir jól. Framkvæmdastjóri hjá Póstinum segir allt verða lagt í sölurnar til að allir pakkar nái á áfangastað.

„Ég er bjartsýnni í dag en í gær. Við náðum að senda alla bíla af stað eftir miðnættið. Þeir sem fóru norður og vestur skiluðu sér á áfangastað. Aðstæður voru krefjandi, 40 m/s á Kjalarnesinu.

Sá sem fer austur bíður við Kirkjubæjarklaustur eftir að veðrið gangi niður þar,“ segir Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íslandspósts.

Enginn póstur hefur komið austur né farið af svæðinu síðan á sunnudagskvöld vegna ófærðar. Hann var þá sendur af stað á undan bylnum sem gengið yfir yfir landið síðustu tvo daga. Enn er lokað milli Kirkjubæjarklausturs og Jökulsárlóns, þar er hvasst auk þess sem kanna þarf skemmdir á veginum þar sem klæðning hefur fokið af. Upplýsinga þaðan er að vænta upp úr hádegi.

Hörður segir að allt kapp verði lagt á að koma sendingum fyrir til skila fyrir jól. „Við munum leggja allt í sölurnar en til þess þurfum við nánast að keyra allan sólarhringinn. Við erum tilbúin að senda fleiri bíla austur ef þarf og fljúga bílstjórum austur til að geta haldið bílunum á ferðinni.

Tæma hillurnar fyrir jól

Póstmiðstöðin í Reykjavík var orðin full í gær en það hefur gengið ágætlega að tæma hana. Við leggjum okkur fram um að koma öllum pökkum úr hillum fyrir jól. Til þess verður flotinn okkar í keyrslu fram á aðfangadag,“ segir Hörður.

Áskoranir póstsins eru tvíþættar. Annars vegar að komast milli staða eða landshluta, hins vegar að geta borið út. „Það hjálpar okkur að koma póstinum til skila ef fólk hjálpar til með að tryggja gott aðgengi að hurðum og póstlúgum.“

Allra síðasti skiladagur á pósti sem senda á milli landshluta er á morgun þótt Hörður mælist til að fresta sendingum ekki þangað til ef hægt er að póstleggja þær í dag. Ekki er gert ráð fyrir hefðbundnum póstútburði á aðfangadag, laugardag, en pósthús verða opin fyrri part dags og einhver útkeyrsla. Til skoðunar er að lengja opnunartíma næstu daga.

Hlaðnir flutningabílar

Bílar Eimskips fóru úr Reykjavík klukkan sex í morgun og bíða líkt og póstbílarnir við Kirkjubæjarklaustur eftir að opnað verði þar. Davíð Þór Sigurðarson segir að um borð sé bæði matvara og mikið af jólagjöfum Eins bíða bílar eystra, einkum með fisk og áætlunarbíll frá Akureyri sem ekki hefur komist austur.

Vonast er til að bílarnir komist austur í dag og verður unnið fram eftir kvöldi við að tæma þá og koma vörum út áður en næstu bílar koma á morgun.

Eimskip keyrir líka út vörum innan landshlutans. Davíð segir að það hafi gengið þokkalega nema að ekki hafi verið farið á Seyðisfjörð síðan á mánudag, það náðist áður en vegurinn lokaðist. Hann var svo opnaður á ný klukkan rúmlega ellefu í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.