Reyðfirðingar þrýsta á um nýtt íþróttahús

Íbúasamtök Reyðarfjarðar vilja að á næsta ári verði hafist handa við undirbúning að nýju íþróttahúsi á staðnum því núverandi hús sé orðið úrelt.

Íbúasamtökin voru endurvakin í byrjun júlí og í síðustu viku var haldinn hugarflugsfundur þar sem farið var yfir ýmis mál sem snúa að byggðinni.

„Það var mikil umræða um hvaða atriði ætti að vinna að og í lok fundarins var kosið um forgangsmál,“ segir Helgi Laxdal Helgason, sem sæti á í stjórn samtakanna.

Endurbætt íþróttahús var það málefni sem flest atkvæði hlaut. Reyðfirðingarnir benda á að það sé löngu orðið barn síns tíma. Aðgengi að því sé þannig að ekki sé hægt að koma meiddi manneskju beint út úr því á börum og aðgengi fatlaðra sé afar takmarkað sem stríði gegn stefnu um skóla án aðgreiningar.

Þá sé húsið of lítið, einkum miðað við að fjöldi barna undir 16 ára aldri er sá mesti á Reyðarfirði af öllum byggðarkjörnum Fjarðabyggðar.

Fjarðabyggðarhöllin sé vissulega þar við hliðina, en hún sé yfirbyggður knattspyrnuvöllur en ekki íþróttahús. Aðrar íþróttir séu ekki stundaðar þar. Þá er bent á aðstæður í höllinni þar sem oft verði mjög kalt á veturna sem bæði fæli iðkendur frá og valdi veikindum hjá þjálfurum.

Í ályktun fundarins er lagt til að á næsta ári verði gert nýtt deiliskipulag fyrir skólasvæðið með nýju íþróttahúsi og hönnun þess hafin. Samhliða þessu er þrýst á að rútuferðir verði skipulagðar í kringum fleiri íþróttaæfingar heldur en nú er innan sveitarfélagsins.

Fleiri mál voru tekin fyrir á fundinum. Sérstaklega lýstu fundarmenn áhyggjum sínum af ástandi félagsmiðstöðvarinnar Zveskjunnar, sem þeir segja mjög ábótavant ekki ekki sé einu sinni einfaldasta viðhaldi sinnt.

Að auki var rætt um snjómokstur, göngustíga, eflingu hernámsdagsins sem í ár var sá fjölmennasti frá upphafi, tiltektardaga í bænum og samkomu fyrir nýja íbúa til að kynnast samfélaginu. Hún verði haldin í kringum skólabyrjun á haustin en verði þó allt eins fyrir fullorðna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.