Skip to main content

Reyðarfjarðarhöfn næst stærsta útflutningshöfn landsins

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. okt 2023 09:02Uppfært 26. okt 2023 09:05

Reyðarfjarðarhöfn er næst stærsta útflutningshöfn landsins á eftir Reykjavík og sú þriðja stærsta þegar heildarvöruflutningar eru skoðaðir.


Þetta kemur fram í gögnum Hagstofunnar um vöruflutninga með skipum á síðasta ári. Reykjavík er stærst í heildarmagninu með 1.735.660 tonn, um Grundartanga fóru 1.540.892 tonn og 1.297.165 um Reyðarfjörð. Þar á eftir kemur Straumsvík með 793.483 tonn og þar á eftir Þorlákshöfn með 440.660 tonn.

Af greiningum talnanna má sjá að vöruflutningar um Reykjavík virðast vera að draga saman en aukast um Þorlákshöfn. Magnið þar hefur tvöfaldast undanfarin fimm ár.

Nærri stærsta útflutningshöfnin


Reyðarfjarðarhöfn samanstendur af Mjóeyrarhöfn, sem stendur við álverssvæðið og bæjarhöfninni þar sem umsvifin eru nokkuð minni. Mismunurinn er slíkur að nær er að tala um Mjóeyrarhöfn.

Útflutningurinn er nærri jafn mikill og úr Reykjavík. Frá Reyðarfirði voru flutt út 429.166 tonn á síðasta ári, samanborið við 438.007 frá Reykjavík. Eins og áður er greint frá hefur útflutningurinn þaðan dregist saman síðustu ár, var 775.394 tonn árið 2019. Flutningurinn frá Reyðarfirði hefur minnkað á sama tíma en ekki nærri jafn mikið.

Þar sem Mjóeyrarhöfn var svo að segja byggð fyrir álver Alcoa Fjarðaáls kemur ekki á óvart að iðnaðarvörur séu uppistaðan í útflutningnum, 349.191 tonn. Hún er líka gríðarlega öflug fiskútflutningshöfn. Sé aðeins litið til fiskafurða þá er hún næst stærst með 78.463 tonn, á eftir Reykjavík með 221.941 tonn.

Sé útflutningur á mjöl og lýsi tekinn með í reikninginn þá skjótast Vestmannaeyjar upp fyrir með alls 80.719 tonn en ekkert af því er flutt úr frá Reyðarfirði eða Reykjavík. Hæsta einstaka höfnin með mjöl og lýsi er hins vegar Norðfjarðarhöfn. Þaðan voru flutt út af 46.764 tonn af mjöli og alls 64.101 tonn af sjávarútvegsafurðum.

Innflutningur eykst um Seyðisfjarðarhöfn


Munurinn á Reyðarfirði og stærstu höfnunum á landsvísu er helst sá að mikið meira er flutt inn af vörum til Grundartanga á Reykjavíkur. Vöruinnflutningurinn til Reyðarfjarðar er samt umtalsverður, 867.999 tonn sem virðist mest efni til iðnstarfsemi.

Til viðbótar við Reyðarfjörð og Norðfjörð eru tölur fyrir hafnirnar á Seyðisfirði og Eskifirði einnig sundurgreindar í tölunum. Frá Seyðisfirði voru flutt út 38.390 tonn. Um 2/3 þess voru sjávarútvegsafurðir en afgangurinn flokkast undir aðrar vörur. Sá innflutningur hefur heldur vaxið síðustu ár.

Útflutningurinn frá Eskifirði var 25.474 tonn, allt sjávarafurðir. Þangað voru flutt inn 19.099 tonn, alfarið eldsneyti. Er það svipað magn og flutt var af því til Norðfjarðar og Reyðarfjarðar.