Reistu módulhúsin á tveimur dögum

Tvö hús með samtals sextán íbúðum voru reist í Neskaupstað á einni helgi í byrjun maí. Húsin eiga að vera tilbúin til afhendingar fljótlega. Framkvæmdastjóri SÚN segir mikla spurn eftir íbúðum í bænum.

„Það var lygilegt að fylgjast með þessu. Hvort hús reis á einum degi,“ segir Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN. Húsin standa við Hafnargötu og eru byggð af Hrafnshól fyrir SÚN.

Vinnuflokkur kom til að reisa húsin helgina 6. – 7. maí og voru þau því nýkomin upp þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kom í opinbera heimsókn til Norðfjarðar að morgni mánudagsins 8. maí.

Húsin eru á tveimur hæðum og átta íbúðir í hvoru þeirra. Íbúðirnar eru í tveimur stærðum, 40 fermetrar og 80 fermetrar.

Guðmundur segir framkvæmdirnar hafa gengið vel og verkið á áætlun. Til standi að afhenda íbúðirnar kaupendum og leigjendum fljótlega. Í sumar verður gengið frá lóðum og bílskúrar byggðir. Framkvæmdum á að fullu að verða lokið í haust.

Þessa dagana er verið að ganga frá samsetningu íbúðanna. Svalir verða settar á þau að sunnanverðu en stigar að ofanverðu á næstunni.

Um er að ræða svokölluð módulhús, einingahús sem komu nær fullbúin til landsins og er síðan raðað saman. Einingarnar voru smíðaðar í Eistlandi en komu til Norðfjarðar um miðjan desember og voru geymd á hafnarsvæðinu í tæpa sex mánuði. Guðmundir segir ekki annað að sjá en einingarnar séu í toppstandi eftir veturinn.

Módulhús hafa reynst vel í Norður-Noregi en húsin í Neskaupstað eru með þeim fyrstu þessarar gerðar sem byggð er á Íslandi. Guðmundur segir hafa verið athyglivert að ræða við verkstjóra vinnuflokksins og heyra að allt að 13 hæða módulhús hafi verið reist erlendis.

Guðmundur segir mikla eftirspurn eftir íbúðunum en nokkrar þeirra eru enn óseldar. „Það er nánast haft samband vegna þeirra daglega.“

Eftirspurnin endurspeglast í framkvæmdum. Skammt innan við fjölbýlishúsin hefur Nestak í vetur byggt þrjú einbýlishús við Strandgötu. Þau risu í febrúar og er umhverfið farið að taka á sig mynd því búið er að tyrfa í kringum þau.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.