„Reiknum með að fólk velti við steinum á þessum fundum“

Fyrsti íbúafundurinn af fjórum um mögulega sameiningu Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar verður haldinn á Egilsstöðum í kvöld. Formaður sameiningarnefndarinnar segir fundina hugsaða þannig að gestir geti leitað svara við sínum spurningum.

Íbúafundirnir verða haldnir hver í sínu lagi fram til fimmtudags. Fyrirkomulagið verður með þeim hætti að fyrst verður kynning á vegum samstarfsnefndarinnar, síðan stutt kaffihlé og svo fyrirspurnum svarað.

Fundargestir senda fyrirspurnir sínar inn rafrænt og ber fundarstjóri þær svo upp. Björn Ingimarsson, formaður samstarfsnefndar sveitarfélaganna, segir fyrirkomulagið með það í huga að koma sem flestum fyrirspurnum að.

Þá verður fundinum streymt á Facebook-síðu Fljótsdalshéraðs. Slíkt fyrirkomulag verður einnig í boði á hinum stöðunum þar sem fundirnir verða haldnir. Ekki sé þó lokið fyrir að fólk geti tjáð sig stuttlega úr salnum. Fundirnir séu haldnir til að fá fram gagnrýna umræðu um málefnið.

„Við reiknum með að fólki sæki þessa fundi til að velta við steinum. Við hvetjum þá sem hafa áhyggjur, efasemdir eða spurningar til að mæta þannig að hægt sé að taka umræðuna,“ segir Björn.

„Það hafa verið skiptar skoðanir í samstarfsnefndinni um ýmis mál og menn velt fyrir sér hlutunum. Mér hefur fundist það einn aðalkosturinn að menn hafa ekki alltaf verið sammála heldur hefur átt sér stað rökræða.“

Fundurinn í kvöld verður haldinn í Valaskjálf. Á morgun þriðjudag verður fundur í Herðubreið á Seyðisfirði, á miðvikudag á Hótel Framtíð á Djúpavogi og loks í Fjarðarborg á Borgarfirði á fimmtudag. Fundirnir hefjast allir klukkan 18:00 og gert er ráð fyrir að þeir standi í um þrjá tíma.

Frá íbúafundi á Borgarfirði í vor. Mynd: Magnús Þorri Jökulsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.