Reiknar með Eggjunum á nýjum stað næsta sumar

Sveitarstjóri Múlaþings reiknar með að útilistaverkið Eggin í Gleðivík verði komið á nýjan stað næsta sumar. Ákveðið hefur verið að finna þeim nýjan stað eftir banaslys sem varð í nágrenni þeirra þegar ferðamaður varð fyrir lyftara fyrir viku. Skoða þarf öryggismál gagnandi vegfarenda víðar á Djúpavogi.

„Það hefur áður verið rætt að flytja eggin og nú er komin sátt um það. Það hefur verið reynt að girða svæðið af og merkja en það virkar takmarkað því fólk virðir ekki merkingarnar.

Þess vegna er eina leiðin til að tryggja öryggi gesta að finna Eggjunum nýjan stað þar sem ekki er þungaumferð eða athafnasvæði,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

Hann og höfundur útilistaverksins, Sigurður Guðmundsson, funduðu í síðustu viku og ákváðu að Sigurður og sveitarfélagið myndu saman reyna að finna verkinu nýjan stað. „Listaverkið er glæsilegt og viljum að það standi áfram með reisn. Til þess finnum við öruggan stað við sjávarsíðuna. Það eru ákveðnar hugmyndir uppi sem ég vil ekki viðra núna en Sigurður og heimastjórn Djúpavogs mun fara yfir þær,“ segir Björn.

Nýtt skipulag í Gleðivík

Eggin eru eftirmyndir úr steini af eggjum 34 varpfugla í gamla Djúpavogshreppi sem sameinaðist í Múlaþing 2020. Þeim var komið fyrir við Gleðivík sumarið 2009 og hafa síðan orðið eitt helsta aðdráttarafl Djúpavogs. Aðstæður í Gleðivík hafa breyst síðan. Þar er nýbyggð umbúðaverksmiðja og fyrirhugað laxasláturhús. Til framtíðar er horft til þess að þjónusta við fiskeldið verði mest þar og þess vegna er byrjað að þrýsta á að uppbygging hafnarmannvirkja þar komist inn á samgönguáætlun.

Vegna þessa var komin af stað umræða um öryggi ferðafólks og vinna við nýtt skipulag. Á fimmtudagsmorgunn kynnir Múlaþing tillögur um breytingar á aðalskipulaginu. Hún felur í sér stækkun athafnasvæðisins við Innri-Gleðivík, nýja vegtengingu þangað að þjóðveginum, nýrrar ferðamannabryggju við Djúpavog, fráveitumannvirki, stækkun íbúðasvæðis við Fögruhlíðarkletta og Hammersminni. Aðspurður svarar Björn að hann reikni með að skipulagsmál á Gleðivíkursvæðinu verði frágengin eftir um mitt næsta ár.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni liggu frumhönnun vegarins fyrir. Um er að ræða nýjan veg sem ekki er enn kominn á samgönguáætlun og því óljóst hvenær hann verður gerður.

Þarf að huga að Voginum

Einnig er til umræðu hvernig hægt sé að auka öryggi í kringum aðalhafnarsvæði Djúpavogs í daginn, í Voginum. Þar eru núna framkvæmdir í gangi, verið að lengja stálþil og breikka hafnarmannvirki. Þar landa fiskibátar fiski og skemmtiferðaskip ferja fólk í land, auk annarrar umferðar um hjarta Djúpavogs.

„Þetta svæði sinnir í dag fiskeldi, fiskibátum og ferðafólki. Þegar rútur koma á svæðið og farþegar koma úr skemmtiferðaskipum er þarna töluverð umferð við ekki hentugustu aðstæður. Þess vegna er sveitarfélagið að skoða með heimafólki leiðir til að tryggja öryggi þarna.“

Strax eftir slysið í Gleðivík var skerpt á öryggi þar, merkingar endurbættar og girðingar, sem legið höfðu niðri eftir veturinn, reistar við á ný. Sem fyrr segir er það ekki talið nægjanlegt til langs síma og því verða næstu vikur nýttar í að finna þeim nýjan stað.

Nokkuð verk verður að flytja þau, enda um nokkur tonn af steini að ræða. „Þetta verður mikið verk en það þarf að vinna. Það er enginn tímarammi á verkinu. Við sjáum fyrir okkur að sest verði yfir mögulegar staðsetningar í sumar og gengið í að færa eggin þegar nýr staður er tilbúinn. Ég myndi vilja sjá þau á nýjum stað næsta sumar.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.