Orkumálinn 2024

Reikna með að fyrsti áfangi vindmyllugarðs í Klausturseli verði 50-300 MW

Vindorkufyrirtækið Zephyr hefur lagt fram áætlun um mat á umhverfisáhrifum allt að 500 MW vindorkugarðs í landi Klaustursels á Fljótsdalsheiði. Vindmyllurnar munu sjást víða af austfirska hálendingu. Þörf verður á miklum flutningum í tengslum við framkvæmdirnar.

Gert er ráð fyrir að hver vindmylla geti framleitt 5-7 MW. Það þýðir að fullbyggður þyrfti garðurinn 70-100 vindmyllur. Zephyr ætlar sér að áfangaskipta verkefninu og byrja á 50-300 MW garði. Stærðin veltur á eftirspurn eftir raforku þegar líður að framkvæmdum.

Ekki er komið inn á tímasetningu framkvæmdanna í matsáætluninni en Zephyr bíður eins og fleiri eftir stefnumótun og löggjöf Alþingis um vindorku á Íslandi. Fyrirtækið hefur óskað eftir að Klausturselsvirkjun, eins og garðurinn er kallaður, yrði tekin til umfjöllunar við endurskoðun rammaáætlunar en hann hefur ekki farið þar í gegn enn.

Vísbendingar um nægan vind

Garðurinn yrði í um 600 metra hæð norðurhluta Fljótsdalsheiðar í landi Klaustursels á Efri-Jökuldal. Til skoðunar er svæði sem er 4.110 hektarar að flatarmáli. Veðurskilyrði eru talin hagstæð út frá sögulegum gögnum Veðurstofunnar og hugbúnaði sem Zephyr notast við. Til að safna frekari gögnum yrðu reist að 80 metra há mælingamöstur sem myndu safna gögnum í minnst tólf mánuði. Áformað er að koma þeim upp næsta sumar. Möstrunum er ætlað að safna upplýsingum um fleiri atriði, svo sem líkur á ísingu.

Fleiri skilyrði eru talin góð fyrir vindorkugarðinn á þessum stað, til dæmis nálægð við byggðalínuna sem liggur í gegnum svæðið og tengivirki í Fljótsdalsstöð. Vindmyllurnar sjálfar yrðu tengdar saman með jarðstrengjum. Skoða þarf hvort styrkja þurfi flutningskerfið, til dæmis með byggingu sérstaks tengivirkis við vindorkugarðinn ef hann verður tengdur inn á byggðalínuna. Vatnsaflsvirkjanir í nágrenninu eru taldar kostur því þær jafni sveiflur í framleiðslu vindorkunnar.

Svæðið er ekki flokkað sem mikilvægt fuglasvæði. Þá segir Zephyr að erlendar rannsóknir frá vindorkusvæðum sýni afföll en þau séu óveruleg. Fyrirtækið vísar til náttúrufræðistofnunar Skotlands sem telur ekki þurfa ratsjármælingar á ferðum fugla nema vitað sé um mikilvægar tegundir á ferðinni að nóttu til. Zephyr ætlar því ekki að gera slíkar mælingar nema stjórnvöld skipi slíkt. Þess utan verður notast við hefðbundnar athuganir á ferðum fugla um svæðið.

Mikil mannvirki

Ekki er talin hætta á ferðum vegna náttúruvár á svæðin en kannað verður hvort vindmyllurnar geti truflað fjarskiptakerfi eða flugumferð. Gert er ráð fyrir að þær verði 200 metrar í hæstu stöðu en Zephyr bendir á að tækniþróun í vindmyllum sé ör sem geti þýtt að færri en stærri vindmyllur geti fljótt skilað meira afli en þær sem fyrir eru í dag.

Hver vindmylla mun hvíla á 113 fermetra undirstöðum. Þær verða reistar með krönum sem þurfa 1200 metra plan til að afhafna sig. Áætlað er að 230-540 þúsund rúmmetra af efni þurfi í framkvæmdirnar. Vonast er til að eitthvað af því fáist þegar mokað verður upp úr grunninum fyrir undirstöðunum, annars úr námum sem fyrir eru þannig ekki þurfi að opna nýjar.

Vindmyllurnar verða festar með annað hvort bergankerum eða steypufestingum. Í ankerin þarf 6000 rúmmetra af steypu en 54.000 í festingarnar. Til greina kemur að setja upp færanlega steypustöð á svæðinu. Þetta skýrist með nánari bergrannsóknum á svæðinu. Svæðið er að mestu flokkað sem starmóavist. Þar eru þó flákar af rústamýrarvist sem hefur mjög hátt verndargildi og er á lista Bernarsamningsins um vistgerðir sem þarfnist sérstakrar verndar.

Reiknað er með að íhlutirnir í vindmyllurnar verði fluttir sjóleiðis til Reyðarfjarðar og þaðan annað hvort upp í Klaustursel og áfram eftir línuvegum eða upp í gegnum Fljótsdal eftir vegum Kárahnjúkavirkjunar á stórum flutningabílum. Fyrir hverja vindmyllu þarf tíu ferðir vörubíla. Hver bíll með farmi yrði 120-150 tonn með 12-15 tonn á hverjum öxli. Umfangsmestu farmurinn yrðu um 100 metra löng vindmyllublöðin sem myndu standa aftur af vögnunum. Gera þarf veg að hverri myllu. Áætlað er að tvö sumur þurfi til að byggja fyrsta áfanga vindmyllugarðsins upp á 50-300 MW.

Sjást víða að

Samkvæmt leiðbeiningu Skipulagsstofnunar skal skoða sjónræn áhrif frá vindmyllunum í um 40 km fjarlægð en Zephyr notast við skoska aðferðafræði sem kannar þau í 45 km fjarlægð. Samkvæmt korti í matsskýrslunni verða vindmyllurnar sjáanlegar víða af austfirska hálendinu, einkum Fljótsdals- og Jökuldalsheiðum en einnig Fjarðarheiði, Smjörfjöllum og víðar.

Úr byggð virðist mestar líkur á að vindmyllurnar sjáist úr norðanverðum Efri-Jökudal, meðal annars frá Stuðlagili sem að hluta er í landi Klaustursels en þó ekki bænum sjálfum. Tekið er fram í skýrslunni að ekki séu mörg fjöll eða hæðir sem skyggi á vindmyllurnar úr byggð. Til stendur að taka myndir af völdum stöðum til að meta möguleg sjónræn áhrif. Þar verður lögð áhersla á útsýnisstaðir, ferðaleiðir og íbúasvæði. Við þá vinnu verður skuggaflökt og glampaáhrif skoðuð.

Áætlaður nýtingartími vindmyllanna er 25 ár, þá veðrur ákveðið hvort þær verði rifnar niður eða keyrðar áfram. Í mati á umhverfisáhrifum verður gerð grein fyrir hvernig niðurrifi verði háttað. Framkvæmdin krefst breytingar á aðalskipulagi Múlaþings. Almenningur hefur mánuð til að gera athugasemdir skriflegar við matsáætlunina til Skipulagsstofnunar til 7. janúar og er ætlað að álit stofnunarinnar á henni liggi fyrir í febrúar.

Hvað er Zephyr?

Zephyr Ísland er dótturfyrirtæki hins norska Zephyr. Það er aftur í eigi norskra fylkja og sveitarfélaga. Östfold Energi, sem er í eigu Viken-fylkis og sveitarfélagsins Östfold á 50% en síðan eiga Glitre, sem er í eigu sveitarfélaganna Vardar og Drammen, og Vardar, sem 19 sveitarfélög í Buskerud fylki standa að, 25% hvort.

Höfuðstöðvar Zephyrs eru í Sarpsborg. Það er með sex vindorkuver í rekstri í Noregi, eina í byggingu og tvær í athugun. Það er einnig með áform um fimm vindorkuver í Svíþjóð. Á Íslandi eru heil 10 vindorkuver til athugunar hjá Zephyr, það næsta á Langanesi en hin á Suður- og Vesturlandi.

Kort: Zephyr/Mannvit

klaustursel vindmyllur synileiki

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.