Refsingu frestað eftir löðrunga

Héraðsdómur Austurland ákvað að fresta ákvörðun refsingar skilorðsbundið yfir karlmanni sem löðrungaði annan mann þannig meiðsli hlutust af. Til ryskinga kom vegna deilumáls sem þeir tengdust.

Atvikið átti sér stað í byrjun apríl á þessu ári úti á götu í ónefndu plássi á svæðinu. Samkvæmt ákæru sló ákærði hinn manninn í andlit með flötum lófa og handarbaki þannig að eymsli hlutust af, mar og blæðing úr eyra.

Í málsgögnum kemur fram að atvikið hafi átt sér nokkurn aðdraganda. Eignkona ákærða og barnsmóðir brotaþola, var þar nærri og hafði skömmu áður óskað aðstoðar lögreglu, en hún hafði átt í deilum við barnsföður sinn um allnokkra hríð.

Ákærði sagðist hafa hlaupið til þegar hann sá hana á gangi og eftir stutt rifrildi og atgang, þar sem höfuð þeirra hafi meðal annars flækst saman, hafi hann slegið inn manninn í andlitið. Hann játaði brot sitt og lýsti iðrun. Hann hefur ekki áður sætt refsingu sem hefur áhrif við ákvörðun refsingar.

Dómurinn telur manninn hafa gerst sekan um líkamsárás en taldi réttast að fresta ákvörðun um refsingu í tvö ár. Þá afsalaði skipaður verjandi mannsins sér rétti til þóknunar. Hann hafði við málflutning lýst því að það myndi hann gera ef maðurinn yrði dæmdur til greiðslu hennar.

Málið var höfðað af hálfu lögreglustjórans á Austurlandi. Farið var fram á að maðurinn yrði dæmdur til refsingar og alls sakarkostnaðar en verjandi hans óskaði eftir vægustu refsingu sem völ væri á.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.