Ratcliffe stefnir á að byggja upp verndarsvæði laxa á Norðausturlandi

Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe stefnir að uppbyggingu lífríkis í ám á Norðausturlandi til verndar villtum laxi. Ratcliffe hefur undanfarin ár keypt fjölda jarða í Vopnafirði og Þistilfirði, nú síðast Brúarlandi 2.

„Ofveiði ógnar stofni Norður-Atlantshafslaxins og honum fækkar hvarvetna í ám. Norðurausturhluti Íslands er einn af fáum uppeldisstöðvum laxins sem sloppið hefur hingað til og ég vil gera hvað ég get til verndar svæðinu,“ er haft eftir Ratcliffe í tilkynningu sem send var fjölmiðlum í morgun. Þar segir að langtímamarkmið hans sé að gera laxveiðar Íslands þær bestu og sjálfbærustu í heimi.

Þar kemur fram að Ratcliffe leggi áherslu á sjálfbæra náttúruvernd og hann hafi lagst á árar með öðrum landeigendum við að vernda einstætt náttúrufar svæðisins.

Styður við rannsóknir á laxinum

Hluti af aðgerðum til verndar laxinum sem áætlaðar eru á næstu fimm árum snýr að því að útvíkka hrygningarsvæði laxins með byggingu nýrra laxastiga í Hafralónsá, Hofsá og Miðfjarðará í Vopnafirði. Þá er fyrirhuguð umfangsmikil slepping á frjóvguðum hrognum í þessum ám, auk Selár. Þetta er í samræmi við almenna veiðireglu ánna um að veiddum fiski sé sleppt aftur.

Í samstarfi við nærsamfélagið á Norðausturlandi vinnur Ratcliffe einnig gegn jarðeyðingu og að bættu heilsufari vistkerfis ánna, með fjárfestingu í endurræktun skóga og endurheimt gróðurfars.

Til þess að hægt sé að auka lífslíkur tegundarinnar sem mest, stendur Ratcliffe einnig að ítarlegri langtímarannsókn á afkomu íslenska laxins í ánum og í norðanverðu Atlantshafi. Rannsóknir fara fram í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og háskóla innan lands og utan.

„Norðausturland stendur hjarta mínu nær. Eftir því sem heimsóknunum þangað fjölgar eykst löngun mín til þess að gefa svæðinu til baka, til að hjálpa Norður-Atlantshafslaxinum, sem er ógnað, og einnig til að styðja við samfélagið nærri ánum. Mín skoðun er að sjálfbær langtímanálgun með starfsemi sem stendur undir eigin fjármögnun skipti sköpum, geri laxinum kleift að þrífast vel, ekki bara um skemmri tíma heldur um alla framtíð,“ er haft eftir Ratcliffe í tilkynningunni.

Vill halda búsetu á jörðunum

Verndaráætlunin felur í sér sér nýja fjárfestingu og standsetningu veiðiskála, þar sem að koma iðnaðarmenn og fyrirtæki á svæðinu. Um leið eru bændur á markvissan hátt hvattir til að halda búsetu á jörðum sem keyptar hafa verið, til að viðhalda hefðbundnum landbúnaði og jarðgæðum nærri ánum, og styðja með búsetu sinni með beinum hætti við nærsamfélagið.

Ratcliffe keypti í desember 2016 meirihluta í jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum og segir í tilkynningunni að þau kaup séu birtingarmynd heildstæðrar nálgunar hans á þetta mikilvæga verndarstarf. Þótt svæðið sé að mestum hluta óbyggt mýrlendi, er á hálendi þess að finna helstu vatnasvið ánna á Norðausturströndinni. Markmið kaupanna voru að vernda og viðhalda þessu einstæða umhverfi hálendisins.

Þá segir að árangur af endurbótum og fyrri fjárfestingum Ratcliffes í Selá sé þegar sýnilegur, en þar hefur veiði nú aukist frá ári til árs. Þetta eru jákvæð teikn um að verndaráætlun hans þoki hlutum í rétta átt, og gefi náttúrunni færi á að dafna.

„Náttúruvernd hefur alltaf verið og verður áfram eini tilgangur aðkomu minnar á Norðausturlandi Íslands. Ég vil leggjast á árar við að viðhalda laxastofnunum þar, og vinna náið með bændum og byggðarlögum. Von mín er að úr starfinu verði til sjálfbær starfsemi í sátt við náttúruna, sem einnig komi lífríki svæðisins og samfélaginu öllu til góða,“ segir Ratcliffe.

Ratcliffe með feng úr Selá. Mynd: Einar Falur Ingólfsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.