Orkumálinn 2024

Ragnari snérist hugur kominn hálfa leið til Skotlands

Gæs, merkt á Íslandi í sumar, snéri við og flaug aftur til landsins þegar hún var komin hálfa leið á vetrarstöðvarnar á Bretlandseyjum. Merking gæsarinnar var hluti af alþjóðlegu rannsóknaverkefni á grágæsastofninum.

Alls voru 23 gæsir merktar í sumar hérlendis, þar af 11 á svæðinu frá Kelduhverfi suður í Berufjörð. Merkingin er hluti af samstarfsverkefni Náttúrustofu Austurlands, Náttúrufræðistofnunar, Verkís og Nature Scot. Skotarnir leggja til sendana en Íslendingarnir merkja gæsirnar.

Markmiðið er að kanna betur ástand grágæsastofnsins með að sannreyna hvort vetrartalningar á Bretlandseyjum skil þeim upplýsingum sem þörf er á.

Betri innsýn í líf grágæsarinnar

„Bresku talningarnar eru það eina sem við höfum haft til þessa. Þær gefa til kynna fækkun, síðasta talning benti til 18% fækkunar milli ára. Vandamálið með talningarnar er hins vegar að grágæsin okkar blandast breska vetrarstofninum.

Með sendunum vonumst við til að fá betri innsýn inn í hvernig þær dreifa sér, bæði á Bretlandseyjum og mögulega annars staðar auk upplýsinga um svæðanotkun hennar,“ segir Hálfdán Helgi Helgason hjá Náttúrustofu Austurlands.

Gassinn Ragnar var merktur við Gunnarsstaði í Þistilfirði í sumar, ásamt unganum Elvari að morgni 28. júlí. Ragnar var nefndur eftir Ragnari Má Sigfússyni frá Gunnarsstöðum og unginn eftir tengdasyni hans Elvari Steini Traustasyni en þeir tóku þátt í merkingunni með Sunnu Björk, dóttur Ragnars og sviðsstjóra hjá Náttúrufræðistofnun og Atla Þór Ragnarssyni. Unginn Elvar varð ekki langlífur því hann var skotinn af veiðimanni í Þistilfirði þann 5. september.

Hefur sig til flugs

Ragnar var hins vegar rólegur þar til líða tók á þriðjudaginn 5. október. Um klukkan kortér yfir þrjú hélt hann yfir í Miðfjörð, þar sem hann stoppaði í hálftíma og aftur til Vopnafjarðar, þar sem hann tók sér jafnlangt hlé.

Um klukkan hálf fimm kom hann að Kórreksstöðum í Hjaltastaðaþinghá, en flaug síðan inn með Lagarfljóti og inn að Skriðuvatni í botni Skriðdals. Hann millilenti þar stuttlega áður en hann flaug yfir Breiðdalsheiði og útí Breiðdalseyjar þar sem hann stoppaði í ellefu tíma, eða til um sjö um morguninn.

Mætir mótbyr

Sendarnir senda stöðugt frá sér staðsetningar á meðan þeir eru innan GSM-svæðis. Þess á milli safna þeir gögnum, en senda þau ekki fyrr en þeir komast aftur í samband. Ragnar dettur úr sambandi skömmu eftir brottför frá Breiðdalsvík, en er þá staddur 31 km suðaustur af Papey og stefnir suður til Skotlands.

Í gögnunum kemur fram að um klukkan tvö eftir hádegi var hann kominn 320 km suðaustur af Íslandi, 240 km vestur af Færeyjum og 512 km í beinni loftlínu frá Þistilfirði. Þar mætir honum öflugur mótvindur, 15-20 m/s úr suðri. Gæsin sest því á sjóinn og bíður þar til kortér yfir sjö daginn eftir.

Mótbyrinn virðist hafa lagst illa í Ragnar því að morgni 7. október tekur hann þá ákvörðun að snúa við. Hann kemur í Álftafjörð tæpum sólarhring síðar, stoppar þar í tvo tíma áður en hann heldur áfram heim í Þistilfjörð og er kominn á Þórshöfn upp úr hádegi. Þetta þýðir að á 70 klukkustundum hefur gæsin farið ríflega 1020 kílómetra.

Til stendur að reyna að merkja fleiri gæsir á Suðurlandi nú í október. Hálfdán Helgi segir verkefnið þegar hafa veitt mikilvægar og áhugaverðar upplýsingar. Hann bætir við að önnur gæs frá Berufirði hafi snúið við á suðurleiðinni, en hún hafi ekki verið komin nema rétt út fyrir íslenska landgrunnið sem sé brot af þeirri vegalengd Ragnars.

Myndefni: Náttúrustofa Austurlands

RagnarKort

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.