Ragnar vill leiða Sjálfstæðisflokkinn í Fjarðabyggð

Ragnar Sigurðsson, varaþingmaður og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð, gefur kost á sér í 1.sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð í prófkjöri flokksins þann 26. febrúar nk. 

Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að Ragnar er 40 ára lögfræðingur með meistaragráðu í forystu og stjórnun. Hann er uppalinn Hafnfirðingur, flutti síðan til Akureyrar árið 2006 og fór í Háskólann á Akureyri og svo loks austur á Reyðarfjörð árið 2010. Þar er hann búsettur ásamt konunni sinni, Þórunni Hyrnu Víkingsdóttur og þremur börnum þeirra; Bergþór Flóka, Steingrím Þorra og Sigríði Iðu.

„Ragnar er framkvæmdastjóri hjá RAUST ehf, en áður gegndi hann starfi framkvæmdastjóra hjúkrunarheimila Fjarðabyggðar. Þá var hann til þriggja ára ritstjóri Austurgluggans.

Ragnar hefur verið virkur í starfi flokksins um langa tíð. Fyrst í stjórn og sem formaður Stefnis, félags ungra Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, á árunum 1998 – 2002. Hann var formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri 2007 – 2009 og formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi frá 2011- 2015.Hann hefur setið í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2018, og í stjórn atvinnuveganefndar flokksins frá 2019.

Hann hefur verið virkur í bæjarmálum Fjarðabyggðar á undanförnum árum og verið aðalmaður í bæjarstjórn frá 2019 og einnig setið í bæjarráði frá 2020.

Ragnar leggur áherslu á ábyrgð í rekstri sveitarfélagsins þannig að því sé gert kleift að byggja upp til framtíðar án frekari skuldsetningar. Hann er talsmaður bættra samgangna þar sem höfuðáhersla hans er á uppbyggingu Suðurfjarðarvegar sem forgangsframkvæmd í samgöngumálum fjórðungsins.

Ragnar segir mikilvægt að halda áfram að stuðla að frekari uppbyggingu atvinnulífsins sem er forsenda áframhaldandi fjölgunar íbúa og bættrar þjónustu. Mikilvægt er að lækka álögur á lítil og meðalstór fyrirtæki og gera þeim kleift að vaxa enn frekar samhliða kröftugri uppbyggingu atvinnulífs í Fjarðabyggð...

Þá eru málefni eldri borgara Ragnari hugleikin en þörf er á fjölbreyttari úrræðum fyrir eldra fólk í Fjarðabyggð, bæði búsetukosti og úrræða á borð við dagþjónustu eldri borgara.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.