Orkumálinn 2024

Rafmagn komið aftur á Reyðarfjörð

Rafmagn er komið aftur á Reyðarfjörð eftir að hægt var að koma spenni, sem bilaði í morgun, aftur af stað. Óvíst er hversu lengi hann endist en á meðan eru gerðar ráðstafanir um viðbrögð.

„Eftir ítarlega skoðun á spenninum ákváðum við að láta reyna á hvort hann héngi eitthvað áfram. Afl er komið á 90% Reyðarfjarðar, nokkrir staðir mættu afgangi en allir almennir notendur hafa rafmagn,“ segir Örvar Ármannsson, deildarstjóri netreksturs Rarik á Austurlandi.

Rafmagn fór af bænum á áttunda tíma í morgun eftir að bilun kom upp í spenni í tengivirkinu á Stuðlum í botni fjarðarins. Ráðstafanir voru gerðar til að fá varaspenni frá Akureyri en nokkra daga getur tekið að tengja hann. Eins var farið af stað með varaaflvélar víða af landinu en tíma tekur að koma öllu austur vegna erfiðar færðar.

Þannig þarf að ryðja veginn yfir Víkurskarð til að koma varaspenninum austur því hann er of hár til að hægt sé að flytja hann um Vaðlaheiðargöng. Verið er að kanna hvort fleiri möguleikar séu betri í stöðunni og unnið að því að tengja inn á spenni Landsnets á Stuðlum.

Flutningur varaaflvélanna er enn í gangi og verða gerðar ráðstafanir til að hægt sé að ræsa þær eða grípa til annarra ráðstafanna ef spennirinn fer út aftur. Örvar áætlar að um tvo tíma þyrfti til að koma varaaflinu af stað.

Farið var að kólna í húsum á Reyðarfirði þar sem treyst er á rafmagn til húshitunar. Nágrannarnir á Eskifirði buðu fram félagsheimili sitt fyrir þá sem vildu komast í hlýju og afþreyingu. Kristinn Þór Jónasson, staðarhaldari í félagsheimilinu Valhöll, segir enga Reyðfirðinga hafa komið þangað enn, hins vegar sé ferðafólk sem ekki kemst yfir ófæran Fagradalinn á leiðinni.

Allt sé til staðar ef rafmagnsvandræðin á Reyðarfirði halda áfram. Hlýtt hús, afþreying með kvikmyndasýningum og pizzahlaðborð í kvöld. Rauði krossinn aðstoðar við utanumhaldið.

Óveðrið sem spáð var á Austurlandi hefur ekki náð þeim hæðum sem reiknað var með. Dalurinn er sem fyrr segir enn lokaður en Fjarðarheiði var opnuð eftir hádegið. Þá hefur gildistími gulrar veðurviðvörunar verið styttur niður um tvo tíma og rennur hún nú út klukkan fjögur í fyrramálið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.