Ráðherra vill vanda undirbúning að göngum til Seyðisfjarðar

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, hyggst á næstunni skipa starfshóp til að meta þá kosti sem eru í boði fyrir jarðgöng til Seyðisfjarðar. Hann segir mikilvægt að taka ákvörðun að vel ígrunduðu máli til koma í veg fyrir að framkvæmdin rati síðar í ógöngur.


„Ég tel að þetta mál þurfi að undirbúa mjög vel. Þetta verður stærsta og dýrasta samgönguframkvæmd sem tekin hefur verið ákvörðun um á Íslandi þegar farið verður af stað í hana,“ sagði Jón Gunnarsson á fundi um samgöngumál sem haldinn var á Reyðarfirði í gær.

Jón vísaði til erfiðra fordæma svo sem Vaðlaheiðarganga og Teigsskógar. „Við þekkjum umræðuna um Vaðlaheiðargöng. Þess vegna verðum við að vanda umræðuna til að lenda ekki úti í fúafeni.

Það er líka auðvelt að benda á dæmi eins og Teigsskóg sem undanfarin 15 ár hefur velst á undan okkur í endalausum kæruferlum og nú sitjum við uppi með einhvern versta spottann í vegakerfi landsmanna.“

Fjöldi Seyðfirðinga mætti á fundinn og snérust hugleiðingar þeirra flestar um Fjarðarheiðargöng. Í gærmorgun fundaði Jón með heimamönnum en ráðherrann er á yfirreið um Austurland. Hann hrósaði þeim fyrir baráttuna.

„Það er aðdáunarvert hversu ákveðin og fylgin sér þau eru sem eru í forsvari fyrir Seyðfirðinga. Það hafa verið haldnir margir fundir og teknar góðar umræður.“

„Þarf að skoða allar leiðir“

En þrátt fyrir fjölda funda er það mat Jóns að ræða þurfi málið enn frekar, meðal annars með skipan starfshópsins. Í samtali við Austurfrétt eftir fundinn í gær sagði Jón að hópurinn yrði skipaður fljótt. Ekki hefðu verið fundnir einstaklingar í hann en að honum kæmu bæði sérfræðingar og fulltrúar úr Héraði. Þá væri ekki útilokað að kalla fleiri stofnanir að borðinu til að meta vægi þeirra gagna sem fyrir liggja.

Meðal þess sem hópurinn þarf að meta er hvort betra sé að fara í göng undir Fjarðarheiði eða í gegnum Mjóafjörð og þaðan áfram til Norðfjarðar. Seyðfirðingar hafa virst nokkuð einróma í að fara Fjarðarheiðarleiðina.

„Það þarf að skoða allar leiðir. Því hefur verið velt upp hvort það eigi að fara í gegnum Mjóafjörð. Það er ekki skoðun þeirra sem ég hef heyrt í á Seyðisfirði. Ég ætla hins vegar ekki að fella neinn dóm um það hér og nú.“

Jón sagði að fyrir lægi mikið af gögnum sem fara þyrfti yfir og meta. „Þetta er forgangsmál ekki síst fyrir heimamenn og ég dreg ekki af mér að undirbúa það. Þessi ákvörðun mun fá mikla umræðu í samfélaginu. Þess vegna verðum við að taka málefnalega umræðu og niðurstöðu.

Ég skipa ekki hópinn til að svæfa málið. Það liggja gríðarlega miklar upplýsingar fyrir og ég vil að við séum með þetta vel rökstutt.“

Rannsóknarskýrsla væntanleg

Jón sagði engin sérstök tímamörk á vinnu nefndarinnar en hún ætti að geta skilað af sér niðurstöðum í vetur. Ákvörðun um Seyðisfjarðargöng ráðist síðan af fjármagni.“Ég lofa engu hér og nú um hvenær við getum hafist handa. Það ræðst af fjármagni.“

Bæði Jón og Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri sem er með honum í ferðinni, voru spurðir út í stöðu rannsókna á Fjarðarheiði og hvenær vænta megi skýrslna um niðurstöður rannsókna þar síðustu ár.

Jón svaraði því til að í rannsóknir hefðu verið settar að jafnaði 70 milljónir á ári og það yrði gert áfram.

Hreinn sagði að rannsóknaskýrslan væri til í drögum og verið væri að rýna hana. Við hana verði bætt rannsóknum frá þessu sumri en það muni ekki hafa áhrif á hvenær hún verði birt.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.