Presturinn og djákninn

Séra Arnaldur Bárðarson verður á sunnudag settur í embætti prests í Austfjarðaprestakalli og kona hans, Ingibjörg Jóhannsdóttir, í embætti djákna í Austurlandsprestakalli. Þau hafa komið sér fyrir á hinu forna höfuðbóli og kirkjustað, Heydölum í Breiðdal.

Arnaldur er Eyfirðingur, fæddur og upp alinn á Akureyri. Hann nam guðfræði við Háskóla Íslands og lauk námi 1995. Hann hlaut prestsvígslu 1996 þegar hann var skipaður prestur í Raufarhafnarprestakalli. Þau hjónin stoppuðu þó stutt við á Raufarhöfn því ári síðar fluttu þau að Hálsi í Fnjóskadal, þar sem Arnaldur var prestur í sjö ár.

„Það var gott að vera á Raufarhöfn. En það hefur alltaf blundað í mér dálítill bóndi og ég get ekki neitað því að í hugskoti mínu sá ég alltaf fyrir mér að ég myndi una mér best á prestssetri í sveit.

Ég hef óskaplega gaman að því að stússast í kringum skepnur og brasa við allt sem því við kemur; laga girðingar, stinga út tað, dreifa skít, og svo framvegis. Það hefur þó aldrei verið á stefnuskránni að gerast bóndi og ég held að það myndi ekki henta mér, ég óttast að rómantíkin muni hverfa ef til alvörunnar kæmi,“ segir Arnaldur og brosir sínu hlýlega brosi.

„En það að eiga gamla dráttarvél og stunda einhverskonar smábúskap með prestsstarfinu, það er mitt líf og yndi. Það var meðal annars ástæðan fyrir því að við fluttum að Hálsi á sínum tíma, og nú í Heydali. Við kunnum einfaldlega best við okkur í sveitinni,“ segir hann í viðtali við Austurgluggann.

Erfitt að horfa upp á erfiðleika fólks í hruninu


Þau bjuggu um tíma á Hálsi í Fnjóskadal en fluttu þaðan í kjölfar þess að Arnaldur slasaðist í vinnuslysi. Þau fóru næst til Akureyrar og undu sér ágætlega þar þar til bankahrunið skall á haustið 2008.

„Í kjölfarið komu erfiðir tímar fyrir marga; fólk missti vinnuna, varð fyrir eignatjóni og ýmiskonar félagsleg vandamál skutu upp kollinum og urðu fyrirferðarmeiri. Það var mikið að gera hjá okkur prestunum við að taka á móti fólki í neyð. Við gerðum okkar besta, reyndum að hughreysta það og gátum rétt því smávægilegar peningagjafir frá kirkjunni, úttektarmiða, sem þó dugðu ekki nema fyrir allra brýnustu nauðsynjum í nokkra daga.

Ég viðurkenni fúslega að þetta fór ekki vel í mig. Mér fannst erfitt að horfa upp á neyð sóknarbarna minna, en fyrst og fremst var ég þó reiður. Ég var reiður yfir því að svo mikið óréttlæti gæti átt sér stað í einu ríkasta landi heims, þar sem allir ættu að geta haft það mjög gott. Alþýðan var látin axla byrðarnar, ekki í fyrsta sinn og sennilega ekki það síðasta.“

Ástandið varð meðal annars til þess að þau ákváðu að flytjast til Noregs í byrjun árs 2010. Þau undur sér vel þar en komu heim 2017 til að taka við hótelrekstri foreldra Arnaldar í Hafnarfirð . . . i. . Forsendur þess rekstrar breyttust í Covid-faraldrinum og þá varð Arnaldur prestur á Eyrarbakka.

Leið vel í Noregi


Ingibjörg er einnig að norðan, foreldrar hennar voru bændur á Krónustöðum í Eyjafirði. Eftir grunnskóla fór hún í verkmenntaskólann á Akureyri og tók próf í förðunarfræði frá Elegance International í Hollywood í Bandaríkjunum 1989. Hún lauk kennaranámi við Háskólann á Akureyri 2006 og meistaraprófi í menntunarfræðum með áherslu á sérkennslu frá sama skóla 2008.

Hún tók prestsvígslu í Noregi og vígðist sem sóknarprestur í Södorp kirkju í Guðbrandsdal 2017, skömmu áður en þau þurftu að flytja aftur til Íslands. Norska prestsvígslan er ekki tekin gild á Íslandi, en þegar staða djákna í Austurlandsprófastsdæmi var auglýst sótti Ingibjörg um og sá þar tækifæri í að starfa á sama vettvangi og Arnaldur

„Mér líkaði rosalega vel í Noregi, þar er allt svo miklu stöðugra en hér á Íslandi. Fólkið er vinsamlegt og við fundum aldrei fyrir því að við værum útlendingar,“ segir Ingibjörg.

„Það var með miklum semingi að ég féllst á að flytja til Íslands, þótt það ætti bara að vera tímabundið, og ég er varla búin að losna við heimþrána til Noregs enn þá.

Það er kannski fyrst núna þegar við erum kominn á þennan yndislega stað sem Heydalir eru að ég er að sættast við hugmyndina um að búa áfram á Íslandi. Enda eru aðstæður okkar líka breyttar, fjórir af fimm sonum okkar eru fluttir að heiman, aðeins sá yngsti, sem er tvítugur, flutti með okkur hingað austur.“

Buðu Breiðdælingum heim í kirkjukaffi


Arnaldur mun þjóna innan Austfjarðaprófastsdæmis og einnig hafa skyldur við Djúpavog, þar sem innsetningarmessan verður. Þótt innsetningarmessan sé ekki fyrr en á sunnudag eru þau þegar tekin til starfa og buðu Breiðdælingum heim til sín í kaffi að lokinni messu nýverið.

„Við tókum við þeirri hefð á Hálsi í Fnjóskadal að bjóða í svokallað kirkjukaffi eftir messu. Þetta er hægt í minni sóknum á landsbyggðinni þar sem kirkjugestir eru að jafnaði ekki nema nokkrir tugir, en augljóslega ekki eins hægt um vik í stærri sóknum í þéttbýlinu. Þetta er notalegur og skemmtilegur siður. Það verða meiri og persónulegri tengsl milli sóknarbarnanna og prestsins, og í þessu tilfelli sóknarbarnanna og djáknans,“ segja þau að lokum.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.