„Perlurnar eru mikilvægar fyrir svæðið“

Mikil aðsókn var í gönguleikjunum Perlur Fljótsdalshéraðs og Heiðarbýlin í göngufæri sem Ferðafélag Fljótsdalshéraðs stendur fyrir. Forsvarsmaður segir verkefnið gott fyrir samfélagið og vekji athygli aðkomufólks.


Hjördís Hilmarsdóttir er í Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs. „Við vorum nokkur sem settust niður árið 2006 og ræddum hvað væri hægt að gera til að fá fjölskyldur saman út að ganga. Útkoman var „Perlur Fljótsdalshéraðs“. Í upphafi völdum við tvo staði í hverjum hreppi, annan léttan og hinn lengri og/eða erfiðari. Við útbjuggum stimpilkort, settum stauka á þessa staði sem innihalda gestabók, stimpil fyrir gönguleikinn og upplýsingar um viðkomandi stað,“ segir Hjördís um tildrög gönguleikjanna.


„Fyrst vorum við bara að hugsa um heimamanninn og það var gaman að sjá hve vel þetta gekk, en það var fólk um allt Hérað að leita að perlunum til að ná sér í stimpla. Fljótlega gáfum við út bækling, sem var sendur á hvert heimili á Fljótsdalshéraði og ári seinna var gefinn út bæklingur á ensku,“ segir Hjördís, en leikurinn felst í því að safna níu stimplum en hver staður má aðeins koma einu sinni á kortið. Dregið er úr innsendum kortum í september ár hvert.

„Íbúar hafa verið afar ánægðir með þetta framtak. Fólk segir mér að þetta virki hvetjandi og sumir eru að keppast við að fara allar Perlurnar. Vinningar hafa verið gefnir af fyrirtækjum á svæðinu og ég held að ég hafi bara einu sinni fengið nei þegar ég hef verið að snikja vinninga. Einnig höfum við alltaf verið með sér barnavinninga,“ segir Hjördís.

Verkefni sem aðkomufólk tekur eftir
Perluverkefnið hefur blómstrað og í dag eru 28 Perlur út um allt Fljótsdalshéraðs. „Ferðaþjónustuaðliar hafa áttað sig á hvað Perlurnar eru mikilvægar fyrir svæðið, en í dag dag er þetta verkefni sem aðkomufólk tekur eftir. Gefnir hafa verið út nýir glæsilegir myndskreyttir bæklingar og vegleg skilti hafa verið sett við upphaf gönguleiðar að öllum perlunum. Þá eru perlurnar einnig komnar í frábært gönguappið wapp.is sem gerir það að verkum að allir sem eiga snjallsíma geta gengið eftir því, en það er ómetanlegt öryggisatriði.“

Verkefnin góð fyrir samfélagið
Hjördís segir að ákveðið hafi verið að ráðast í gerð sambærilegs gönguleiks Heiðarbýlanna á Jökuldals- og Vopnafjarðarheiði. „Við köllum það „Heiðarbýlin í göngufæri“. Leikurinn er eins uppbyggður nema þar þarf að safna tíu stimplum. Við fórum með stauka og upplýsingar að 22 heiðabýlum og höfum gefið út bæklinga á íslensku og ensku. Við fengum einnig styrki til að setja vegvísa við upphaf gönguleiða við hvert býli og verið er að gera kynningarmynd um heiðarbýlin í samvinnu við Tókatækni.“

Árlega hefur verið skilað 50-75 kortum í báðum leikjum, oftast mun fleiri í Perluleiknum. Í ár var 64 kortum skilað. „Ég veit að þessi verkefni hafa verið góð fyrir samfélagið. Fólk getur farið á eigin vegum að þessum stöðum þegar því hentar, en einnig til dæmis nýtt sér sunnudagsgöngur Ferðafélagsins, sem margar hverjar eru að Perlunum, en félagið hefur staðið fyrir þeim alla sunnudaga síðastliðin fjórtán ár. Fjöldinn í göngunum er mjög misjafn en ég get fullyrt að fjöldi fólks sem er að ganga að þessum stöðum hefur aukist ár frá ári.“

Styrktaraðilar verkefnanna hafa verið Fljótsdalshérað, Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Iðnaðarráðuneytið, Alcoa, Menningarsjóður Austurlands, Framkvæmdasjóður Ferðamannastaða og uppbyggingasjóður Austurlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.