Óveruleg hreyfing eftir nóttina

Óveruleg hreyfing virðist hafa orðið á jarðvegsflekanum við Búðará á Seyðisfirði í nótt. Færslan er þó heldur hraðari eftir rigningarnar á fimmtudag en þar áður.

Þetta kemur fram í yfirliti frá Veðurstofu Íslands. Samkvæmt línuriti hefur spá mælir, sem mest hefur færst, hreyfst um eina 9 sm. undanfarna viku. Annar mælir á flekanum hefur hreyfst um 7,5 sm.

Alls eru 40 speglar í hlíðinni. Hinir 38 hafa ekki hreyfst.

Fram kemur að radarmynd sýni óverulega hreyfingu þessa stundina. Speglamælingar sýni svipaða hreyfingu og síðustu tvo sólarhringa, sem sé nokkuð meiri hraði en áður.

Vatnshæð í borholum á svæðinu er annað hvort hætt að hækka eða tekin að lækka. Það er til marks um að vatnsþrýstingur á svæðinu sé að minnka

Spáð er rigning um miðnætti í kvöld. Íbúar úr níu húsum við Búðará, sem rýmd voru á mánudag, fá ekki að fara heim fyrr en eftir helgina.

Helgin verður notuð til að vinna úr gögnum sem safnast hafa um ástand jarðvegsflekans. Í tilkynningu frá í gærkvöldi segir að hann sé nokkuð sprunginn þannig ólíklegt sé að hann falli allur í einu. Þá verður athugað hvort þær varnir sem til staðar eru við ána verji byggðina, jafnvel þótt allt fari af stað í einu.

Fjöldahjálparmiðstöð í félagsheimilinu Herðubreið er opin frá 14-16 um helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.