Orkumálinn 2024

Óvenjulegar aðstæður kölluðu á óvenjulega ríkisstjórn

Núverandi ríkisstjórn var mynduð um uppbyggingu samfélagslegra innviða, umhverfismál og jafnréttismál. Forsætisráðherra vonast til að endurskoðun stjórnarskrár sé nú loks að þokast í rétta átt með samvinnu þvert á þingflokka.

Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á opnum fundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á Egilsstöðum á þriðjudag.

Katrín sagði núverandi ríkisstjórn flokksins með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokki vera óvenjulega, myndaða við óvenjulegar aðstæður eftir mikinn óstöðugleika í stjórnmálum síðustu ára.

Hún varaði við stjórnmálum sem gengu út á að skipta fólki í hópa, eins og hefði verið forsenda útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. „Sundrungarpólitík er ein af stóru ógnunum í heiminum. Við höfum tækifæri í íslenskum stjórnmálum til að fara aðra leið.“

Oft væri erfitt að stuðla að samvinnu átta ólíkra flokka á Alþingi. Katrín kvaðst þó vonast til að loks næðist árangri í endurskoðun stjórnarskrárinnar. Fulltrúar allra flokka væru saman í nefnd sem hittist einu sinni í mánuði. Þeir væru ósamála en þó tilbúnir að taka þátt í vinnunni sem miðaði ágætlega.

„Ég tel þingið skulda almenningi að ná fram breytingum á forsendum þeirrar vinnu sem unnin hefur verið síðustu tíu ár og vona að við getum lokið heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum. Það skiptir máli að ná árangri í málum án þess að vera klofin í stjórn og stjórnarandstöðu.“

Þurfum að skoða hví unga fólkinu líður illa

Hún sagði ríkisstjórnina hafa verið myndaða utan um uppbygginu samfélagslegra innviða, umhverfismál og jafnréttismál. Katrín hélt því fram að síðustu tvenn fjárlög bæru glöggt merki um aukin útgjöld til þessara málaflokka. Þá væri opinber fjárfesting að aukast á sama tíma og hægi á einkamarkaðinum.

Katrín sagði að aldrei hefði verið viðlíka uppbygging í heilbrigðiskerfinu og þar hefði verið ráðist í að lækka kostnaðarþátttöku notenda, koma henni niður á sama stig og annars staðar á Norðurlöndunum. Niðurgreiðsla ferðakostnaðar er þar á meðal.

Eins væri bætt í geðheilbrigðismál, sem Katrín sagði alls staðar hæst á baugi þar sem hún ræddi við ungt fólk. Hún sagðist tilbúin að skoða hvort stytting náms í framhaldsskólum í þrjú ár hefði verið rétt skref og áhrif samfélagsmiðla.

„Við þurfum á þessum aldri að hafa tíma til að hafa gaman og njóta lífsins. Allar rannsóknir benda til þess að unga fólkinu okkar líði illa. Við því þurfum við að bregðast, ekki bara í skólum eða heilbrigðiskerfinu heldur líka sem samfélag. Við þurfum að kanna hvers vegna þetta sé svona, þótt allir hagvísar séu í lagi.

Tæknivæðingin er líka stór breyting í samfélaginu. Haldið þið að það hafi ekki áhrif á líðan að vera stöðugt að kanna hvað öðrum finnst um mann. Við höfum líka breytt því hvernig við tölum saman. Eldhúsborðið er komið út í alheiminn.“

Austfirðingar lausnamiðaðir í umræðu um veggjöld

Katrín ræddi einnig átak í húsnæðismálum en hún sagði þau ekki einkamál markaðarins því húsnæði væri grundvallarþörf. Gera þyrfti húsnæðisstefnu til langs tíma, húsnæðisvandamál ættu ekki að vera ófyrirsjáanleg. Stjórnvöld hefðu viðurkennt hlutverk sitt með að koma að endurreisn félagslegs húsnæðiskerfis.

Katrín var nokkuð spurð út í áætlanir í samgöngumálum, þar á meðal hugmyndir um veggjöld. Katrín hrósaði Austfirðingum fyrir að vera lausnamiðaðir en sveitarstjórnir á Djúpavogi og Seyðisfirði hafa tekið jákvætt í hugmyndir um veggjöld til að flýta framkvæmdum. Hún sagði að þótt þingmenn Reykjavíkur hefðu mótmælt veggjöldum, því þau legðust aðallega á leiðir í kringum borgina, væru líka hugmyndir þar um framkvæmdir fyrir 90 milljarða á næstu tíu árum.

Katrín var líka töluvert spurð út í sameiningar sveitarfélaga. Hún sagði afstöðu flokks síns vera þá að ekki ætti að þvinga sveitarfélög til sameininga en ástæða væri til viðræðna ríkisins við sveitarfélög. Henni þætti umræðan vera að breytast, sveitarstjórnarmenn væru opnari fyrir stækkun. Hún sagðist líta sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi jákvæðum augum en átta sig á að hún yrði ekki að veruleika nema úrbætur í samgöngumálum fylgdu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.