Óvenju mörg brotin tré eftir veturinn

Sjaldan hafa fleiri tré skemmst á einum vetri í Hallormsstaðarskógi en nú. Skógræktarstjóri segir ekki um neitt stórtjón að ræða en með hækkandi trjágróðri og tíðari stormum megi búast við meiri skemmdum en áður.

„Skógarvörðurinn á Hallormsstað segist sjaldan hafa séð svona mikið af föllnum trjám í skóginum. Annars er staðan sú um allt land að það eru óvenju mörg brotin tré.

Í janúar og febrúar voru mikil hvassviðri sem höfðu áhrif á öllu landinu. Síðan kom að minnsta kosti einu sinni í byrjun mars mikill blotasnjór hér á Austur- og Norðurlandi.

Þetta er samt ekkert stórtjón, það fóru ekki heilu skógarnir. Þetta eru kannski 2-3 tré á sama staðnum en það lítur alltaf illa út,“ segir Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.

Verðum að aðlagast aðstæðum

Hann útskýrir að skemmdirnar á trjánum séu tvenns konar. Annars vegar séu stökkar tegundir eins og lerki sem brotni, gjarnan þar sem veikleikar eru í stofni þeirra, til dæmis hafi þau orðið fyrir kali. Hins vegar séu tegundir sem fjúki á hliðina, rifni upp með rótum. Slíkt hafi til dæmis verið vandamál með stafafuru hérlendis en ræktun á henni hafi verið bætt til að draga úr hættunni.

Þröstur segir hægt að styrkja skógana til að þola veðrin með nokkrum breytingum. Í fyrsta lagi vali á tegundum til ræktunar, tegundir af strandsvæðum í Kanada eins og sitkagreni og alaskaösp, hafi reynst vel í stormum. Í öðru lagi að rækta trén ekki þar sem jarðvegur sé grunnur, til dæmis stutt niður á klöpp. Í þriðja lagi að fara hægar í grisjun því opin svæði í skógum búi til rými fyrir vind.

Hann telur rétt að huga að þessum aðgerðum þar sem tíðari stormar séu einn fylgifiska loftslagsbreytinga en líka þar sem íslenskir skógar séu að stækka og taki þar með á sér meiri vind.

„Ef tíðari stormar eru framtíðin þá verðum við að aðlagast þeim. Í fyrravetur voru litlar skemmdur en veturinn 2019-20 var mikið fannfergi og stormar á Norðurlandi sem ollu skemmdum.

Þetta er ekkert óviðbúið. Trén okkar eru orðin það stór og gömul að þau eru komin upp í vindinn. 40 m/s eru nóg til að brjóta tré. Það hafa alltaf brotnað tré á Íslandi undan snjó, meðal annars birkið. Þetta sýnir að Ísland er orðið alvöru skógræktarland.

Það þýðir að við eigum eftir að sjá stórskaða. Í byrjun árs 2005 gekk mikill stormur, nefndur Gudrun, yfir Svíþjóð og felldi heilu skógana þar.“

Mynd: Þröstur Eysteinsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.