Óttast að fé hafi drukknað í flóði í Fljótsdal

Bóndi í Fljótsdal óttast að töluvert af lömbum hafi drukknað í morgun þegar Jökulsá fór yfir bakka sína á Valþjófsstaðarnesi. Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til aðstoðar.

„Þetta er mikið flóð, það er allt á kafi maður,“ segir Friðrik Ingi Ingólfsson, bóndi á Valþjófsstað 2.

Friðrik hefur í morgun verið að reyna að bjarga fé af Valþjófsstaðarnesi og í hádeginu voru björgunarsveitarmenn komnir til að aðstoða hann.

„Við björguðum 50-60 kindum hérna í morgun og erum búnir að reka það heim sem við náðum.

Það hefur farið einhver slatti utan við veginn. Það áttu að vera hér tæplega 200 lömb en við sjáum lítið. Það er hins vegar fé niður á bakka sem bjargaðist. Við erum ekki farnir að telja það.“

Elstu menn í Fljótsdal muna vart eftir öðrum eins vatni í ánni. Áin flæðir yfir veginn á nesinu og tók hann í sundur við bæinn Þuríðarstaði nokkru innar. Friðrik óttast að tjón hafi orðið á fleiri bæjum því fleiri bændur hafa staðið í björgunaraðgerðum í mrogun.

„Útnesið er meira og minna á kafi og framnesið er einn fjörður. Það er ekkert farið að minnka í ánni, hún getur vaxið áfram ef það hættir ekki. Við reynum að gera það sem við getum til að bjarga skepnum hér.“

Bærinn Hóll er á milli Valþjófsstaðar og Þuríðarstaða. Þar er rennslið í ánni mælt. Það meira en tvöfaldaðist frá klukkan tvö í nótt til klukkan átta í morgun og hefur ekkert sjatnað síðan. Yfirborð árinnar þar hefur hækkað um 70 sentímetra.

Annar mælir er á Valþjófsstaðanesi, utan við útfall Fljótsdalsstöðvar. Rennslið þar fór úr 380 rúmmetrum frá klukkan tvö í nótt til hádegis og vatnsyfirborðið hækkaði um 1,5 metra.

Myndir: Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir

fljotsdalur 21766867 10155577348687527 5514036997933993797 n

fljotsdalur 22092820 10155577381092527 510834169 o


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar