Orkumálinn 2024

„Ótrúlegt hvað menn leggja á sig í þessum geira“

Á þriðja tug starfsmanna frá Landsneti og undirverktökum unnu dag og nótt síðustu vikuna fyrir jól við lagfæringar á Fljótsdalslínu 4, sem flytur rafmagn úr Fljótsdalsstöð í álverið á Reyðarfirði. Verkstjóri segir að aðstæður við viðgerðina hafi verið eins slæmar og mögulegt var án þess að hætta þyrfti við verkið. Hluti hópsins hafði þá vart sofið í viku því hann vann að viðgerðum á Dalvíkurlínu.

„Það var magnað að fylgjast með öllum þessi hópi. Það er ótrúlegt hvað menn leggja á sig í þessum geira. Þótt við reynum að gæta fyllsta öryggis er vinnan í eðli sínu hættuleg. Því er frábært að allir komi heilir heim eftir þetta og það ber að hæla öllum þeim sem komu að þessu verki,“ segir Ragnar Bjarni Jónsson, verkstjóri Landsnets á Austurlandi í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Ragnar Bjarni var meðal þeirra starfsmanna Landsnets sem nær er að segja að hafi lagt sig frekar en sofið síðustu tvær vikurnar fyrir jól þegar gert var við raforkukerfi landsins sem stórskemmdist í óveðri sem gekk yfir landið þriðjudag og miðvikudag 10. og 11. desember. Myndband sem hann hefur tekið saman frá aðgerðum Landsnets fyrir jól hefur fengið mikið áhorf á samfélagsmiðlum.

Að morgni miðvikudagsins fór rafmagn af Dalvík og vestanverðum Eyjafirði. Fljótlega varð ljóst að Dalvíkurlína, sem liggur frá Akureyri út á Dalvík og sér svæðinu þar norður af fyrir rafmagni, væri stórskemmd.

Ragnar Bjarni var í frí í Reykjavík þegar stormurinn skall á en var sendur norður á Dalvík um leið og veðrinu slotaði til að vera einn þeirra sem stýrðu viðgerðinni. Hann segir það hafa verið sérstakt að koma norður og rifjar upp að starfsmenn Landsnets hafi farið í fylgd bæjarstjórans upp á efri hæð ráðhússins í skímu handluktar. Um 40 manna hópur fundaði þar um næstu skref við kertaljós. Hann segir andrúmsloftið á Dalvík hafa verið sérstakt og þakklæti íbúa þar mikið í garð viðgerðarflokksins.

„Við mættum á fimmtudagskvöldi inn á Dalvík með allt sem við áttum, 40-50 manns og 10-20 flutningabíla með tækjum og tólum. Aðstæðurnar meðan við vorum að gera við voru misjafnar. Nokkrir dagar voru fínir en stundum var fjúk og kóf. Þetta var mikil vinna og dagarnir langir.“

Laskað flutningskerfi

Viðgerðarflokkar frá bæði Landsneti voru víðar að störfum enda fleiri línur á Norðurlandi mikið skemmdar eftir veðrið. Tengivirki í Hrútatungu í Hrútafirði, sem sér Vestfirðingum fyrir rafmagni, komst ekki í rekstur vegna sífelldrar seltu þannig að skammta þurfti rafmagn á Vestfjörðum í fimm daga, Húsavíkurlína var úti í sex daga, níu daga þurfti til að gera við Kópaskerslínu og áfram mætti telja. Dalvíkurlínan var sett í forgang og var viðgerðum þar lokið að kvöldi miðvikudagsins 18. desember, viku eftir að hún skemmdist.

Austfirðingar sluppu tiltölulega vel frá aðventustorminum sjálfum. Straumlaust varð á nær öllu svæðinu í um þrjá tíma miðvikudaginn 11. desember eftir að Fljótsdalslína 2, betur þekkt sem byggðalínan frá Fljótsdalstöð yfir í tengivirkið að Hryggstekk í Skriðdal, leysti út vegna ísingar.

Ragnar Bjarni segir slíkt gerast reglulega og valdi sjaldnast miklum truflunum enda fái Austurland yfirleitt rafmagn úr tveimur áttum. Þegar þarna var komið við sögu var dreifikerfið á landsvísu orðið það laskað að staðan var mjög viðkvæm og því sló Austurlandi út. „Sama hefur gerst nokkrum sinnum síðan án þess að nokkur hafi tekið eftir því. Það tók lengri tíma að keyra kerfið upp eystra, því það var í lamasessi allt í kringum okkur, heldur en ef allt hefði verið eðlilegt.

Bæði starfsmenn Landsnets og tæki að austan voru send norður í land til að hjálpa til við þar og lágmarksvakt haldið úti eystra á meðan.

Ekkert sem boðaði bilun

Höggið eystra kom hins vegar í saklausu veðri í hádeginu 17. desember, þegar loks sá fyrir endann á viðgerðinni á Dalvík. Fljótsdalslína 4, önnur tveggja lína sem flytur rafmagn úr Fljótsdal yfir í álverið á Reyðarfirði leysti út. „Hallormsstaðarhálsinn er frægt ísingarsvæði og við erum þar oft á veturna, bæði að fylgjast með álverslínunum og byggðalínunni. Það var ekkert veður þennan dag, smá ísing en ekki mikil og fátt sem sagði okkur að eitthvað myndi bila,“ segir Ragnar Bjarni.

Það gerði það nú samt. „Það gaf sig millistykki í afspenningu. Í línunni eru annars vegar hengistæður, þar sem línan hangir neðan í einöngrurunum en reglulega þar á milli er hún tekin saman í afspenninga þar sem hún er strekkt upp og stillt af. Þetta eru fastir punktar í línum sem eru hannaðir til að þola gríðarlegt álag og gefa sig mjög sjaldan.

Við það að stykkið gefur sig missum við niður leiðarann og þar með einn fasa af þremur. Þegar þetta gerist verður mikið átak því þetta er strekkt fast báðu megin í mastrið. Þegar allt álagið er tekið af öðru megin hangir það allt á hinu megin. Við að þetta smellur svona skaðast stálið í turninum,“ segir Ragnar Bjarni.

Átök að gera við öflugustu línur landsins

Frá Fljótsdalsstöð og yfir Hallormsstaðarháls að tengivirkinu við Hryggstekk í Skriðdal liggja þrjár línur. Fljótsdalslína 2, sem í daglegu tali kallast byggðalínan og er gerð fyrir 132 kV spennu. Samhliða henni eru Fljótsdalslínur 3 og 4 sem sjá álverinu á Reyðarfirði fyrir rafmagni. Þær eru tvær þannig að minnst önnur sé til staðar því ef rafmagn fer af álverinu stöðvast framleiðslan og vari það lengi getur orðið mikill skaði á búnaði þar.

„Að gera við háspennulínu er ekki það sama og gera við háspennulínu. Í almennu línunum sem Rarik sér um er gjarnan einn maður sem klifrar upp í staurinn og hefur með sér skálar og búnað til að gera við. Álverslínurnar eru hins vegar tvær af stærstu háspennulínum á Íslandi. Þær eru báðar keyrðar á 220 kV, næsta spennustigi fyrir ofan byggðalínuna, en voru á sínum tíma byggðar fyrir 400 kV. Það var allt lagt í að þær yrðu eins sterkar og öflugar og hægt er til að þola flest allt. Á móti fylgja því mikil átök þegar þær bila og gera þarf við þær. Við erum að tala um hæðir, tíma og krafta.“

Til að sinna álverslínunum hefur stöð Landsnets á Egilsstöðum sérstaka beltavél sem teygt getur sig upp í 37 metra hæð og er snjóbíll um leið. Vélin var keypt sérstaklega til að sinna línunni í aðstæðum eins og sköpuðust fyrir jól og er sú eina sinnar tegundar hér á landi. Hún var ferjuð á svæðið ásamt fleiri tækjum eftir að bilunin kom í ljós. „Við fórum með stærsta vörubílskrana Austurlands, 110 tonna krana, beltagröfur og fleira sem við drógum uppeftir á jarðýtum.“

Liðsauki frá Dalvík og Reykjavík

Samkvæmt yfirliti frá Landsneti var bilunin fundin klukkan fjögur á þriðjudegi. Hún var í norðurhlíðum Skriðdals, nokkru ofan við bæinn Mýrar, áður en línan fer upp á sjálfan Hallormsstaðarhálsinn. Aðstæður voru skoðaðar á þriðjudagskvöldi og á miðvikudegi hófust viðgerðir. Aðfaranótt miðvikudags nýttu lykilviðgerðarmenn Landsnets, sem höfðu verið við viðgerðir á Dalvík, til að keyra austur og unnu með Austfirðingunum allan miðvikudaginn.

„Við byrjuðum á að reyna að strengja línuna strax aftur upp. Við fyrstu skoðun leit út fyrir að mastrið væri í lagi. Við svona aðstæður er allt stálið í mastrinu þakið ís og snjó og því erfitt að meta aðstæður. Þegar við byrjum verkið fer turninn að hreinsa sig og við sjáum frekari skemmdir treystum við okkur ekki til að halda áfram,“ segir Ragnar Bjarni.

Seint að kvöldi miðvikudags, þegar viðgerðarflokkurinn kom aftur niður í bækistöð Landsnets á Egilsstöðum, hófst fundur sem stóð fram eftir nóttu. Í kjölfarið var kallað eftir aðstoð frá höfuðstöðvunum í Reykjavík. Þannig kom á fimmtudagskvöldinu hópur sérfræðinga í stáli með tæki sín með leiguflugi að sunnan. Þeir fóru strax upp í Skriðdal að skoða turninn og að lokinni úttekt þeirra var farið í að smíða það sem til þurfti til að styrkja stæðuna. Ragnar Bjarni segir að menn hafi vart unnt sér hvíldar frá því stálsérfræðingarnir komu þar til verkinu var lokið. Samkvæmt samantekt Landsnets var komið rafmagn á línuna á ný klukkan hálf níu að morgni laugardagsins 21. desember.

„Menn sváfu einhvern veginn, þeir sem gátu lagt sig gerðu það í bílunum eða komust inn á hótel stutta stund. Veðrið var þannig að á köflum var ekki hægt að vera í krananum. Fyrst voru aðstæðurnar ekkert slæmar, það var vont vetrarveður en ekkert stórveður. Síðan versnar veðrið og aðstæður urðu eins slæmar og hægt var án þess að hverfa þyrfti frá. Ef veðrið hefði orðið verra hefðum við ekki getað unnið þarna. Síðan horfðum við fram á versnandi veðurspá fyrir helgina þannig að við vorum í kappi við tímann að ljúka verkinu áður en það skylli á,“ segir Ragnar Bjarni.

Hættu klukkan tvö aðfaranótt aðfangadags

Á sama tíma og gert var við stæðuna voru starfsmenn frá Landsneti í snjóbíl og keyrðu stöðugt meðfram Fljótsdalslínu 3, hinni álverslínunni, til að fylgjast með ísingu og létu gröfumann vita ef grípa þurfti inni í. Ragnar Bjarni telur að alls um 25 einstaklingar hafi komið að aðgerðunum á Hallormsstaðarhálsi.

Vakt starfsmanna Landsnets var ekki lokið þótt stæðan væri komin í það ástand að hún þætti á vetur setjandi. Á Þorláksmessu var ráðist í að íshreinsa Fljótsdalslínu 2, byggðalínuna. „Hún var í krítísku ástandi þannig að við þurftum að hreinsa hana svo að hægt væri að eiga gleðileg jól. Við hættum að vinna klukkan tvö aðfaranótt aðfangadags.“

Þar með er þó ekki allri vinnunni lokið. Flutningskerfi raforku í landinu er enn stórskaðað eftir aðventustorminn, einkum á Norðurlandi. Til dæmis hefur ekkert náðst að laga Laxárlínu. Þá er eftir að taka út viðgerðina á stæðunni í Skriðdal og nær öruggt er talið að gera þurfi meira þar í sumar. Eins er óljóst hvað olli biluninni.

Starfsmenn Landsnets eru hins vegar ekki óvanir því að hafa í nægu að snúast um jól og áramót. „Þetta er það sem við gerum, sjáum til þess að allt sé í lagi. Við höfum oft staðið í viðgerðum á vondum tímum. Ef aðventustormurinn hefði komið tíu dögum síðar hefðum við unnið allar hátíðarnar og værum enn að.

Síðasti vetur leið án meiriháttar bilana í kerfinu en veturinn 2013-14 var okkur hér eystra erfiður. Þá var nánast stöðug skýjaísing í einn og hálfan mánuð. Allan þann tíma var mikið álag á mannskap vegna bilana: á Eskifjarðarheiði, ofan Reyðarfjarðar, Fljótsdalslína 2 bilaði stanslaust og línurnar til Vopnafjarðar líka. Þá bilaði bæði á aðfangadag og nýársdag. Nokkrar af þessum línum eru í í dag á leið í jörð að hluta á erfiðustu stöðunum, til dæmis Vopnafjarðarlína. Við vorum hins vegar heppin að hafa tvítengingar til staðanna sem biluðu til skiptis þannig að áhrifin urðu minni,“ rifjar Ragnar Bjarni upp.

GG

Frá viðgerðum á Fljótsdalslínu 4. Mynd: Landsnet

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.