Ótrúlegt að keyra langar leiðir án þess að huga að varadekkinu

Þjóðverji á eftirlaunum og rúmenskur ferðafélagi hans voru í byrjun vikunnar dæmdir í sjö ára fangelsi í héraðsdómi Reykjavíkur en þeir voru gripnir með yfir 40 kg af örvandi efnum í bíl sínum við komuna til Seyðisfjarðar með Norrænu í byrjun ágúst. Efnin fundust í leynihólfi undir farangursgeymslu bílsins eftir að fíkniefnahundur hafi sýnt farartækinu áhuga.

Tvímenningarnir komu með Norrænu til landsins þann 1. ágúst síðastliðinn. Upphaflega vakti það athygli tollvarða að skráningarnúmer bifreiðarinnar, Austin Mini Cooper, var annað en það sem gefið var upp á farmiðanum. Þá hefðu þeir ekki verið með bókað far frá landinu né innflutningsleyfi fyrir bifreiðina.

Mönnunum voru gefnar leiðbeiningar um hvernig þeir gætu fengið tilskilin leyfi, sem þeir og gerðu. Er þeir komu aftur úr þeim göngutúr hafði bifreiðin verið færð á leitarsvæði. Þeir fengu að fylgjast með leitinni í fyrstu en voru handteknir og aðskildir eftir að fíkniefnaleitarhundur hafði merkt við skott bifreiðarinnar.

Fjarstýrt leynihólf

Tollverðir héldu hins vegar áfram að skoða bílinn. Undir teppi í farangurshólfinu grillti í ummerki eftir logsuðu sem ekki samræmdist eðlilegum frágangi. Teppið var rifið af og kom þá í ljós plata sem soðin hafði verið þar á, yfir þar sem varadekkið hefði átt að vera. Hægt var að stinga skrúfjárni niður um göt í farangurshólfinu og reyndust fíkniefni þá koma á járnin.

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að þar voru falin tæp 38 kg af amfetamíni og tæp 5 kg af kókaíni. Efnin reyndust frekar sterk miðað við þau sem fundist hafa hérlendis undanfarinn áratug. Fyrir dómi bar efnafræðingur að líklega mætti tvöfalda umfang efnanna fyrir sölu með útþynningu.

Lögregla þurfti að fjarlægja afturstuðara bílsins til að komast að efnunum, þar fyrir innan var lok sem hægt var að ýta frá með handafli. Á bakvið skráningarmerki bílsins var hins vegar rafdrifið lok sem hægt var að opna með fjarstýringu. Hún fannst ekki þrátt fyrir leit.

Eftir þetta var farið að rekja ferðir mannanna meira en ár aftur í tímann enda reyndust þeir hafa flakkað ýmislegt saman á bílnum, bæði til Osló og Basel auk þess að hafa heimsótt Ísland sléttu ári áður. Þá hafði Rúmeninn komið til landsins um miðjan júlí.

Einn höfuðpaur flúinn og annar aldrei til?

Mennirnir bjuggu báðir í þýsku borginni Mönchengladbach og báru því við að þeir hefðu kynnst í gegnum Rúmena sem ræki þar byggingafyrirtæki. Höfðu meðal annars starfsmenn hans leigt herbergi hjá Þjóðverjanum. Báðir báru því við að þessi maður hefði skipulagt flestar ferðirnar og greitt fyrir þær. Þýska lögreglan fór að heimili þess manns í Mönchengladbach, en hann reyndist ekki þar. Talið er að hann hafi flúið til Rúmeníu. Þótt þýska lögreglan væri samstarfsfús gekk illa að fá gögn þaðan, að því er fram kemur í dóminum. Þá vísaði Rúmeninn á annan höfuðpaur en aldrei var hægt að fá staðfest að hann væri yfir höfuð til.

Bifreiðin var skráð á nafn Rúmenans. Í ljós kom að hún hafði verið skráð á hann nokkrum sinnum frá ársbyrjun 2018 og með mismunandi skráningarnúmerum. Rúmeninn sagði hana raunverulega hafa verið í eigu byggingaverktakans, en hentugra hefði verið að skrá hana á hann í ferðunum. Ólík númer hefðu verið vegna vangreiddra bifreiðagjalda. Fyrir Íslandsferðina í sumar sóttu þeir bílinn til Hollands og fengu þær upplýsingar að hagstæðara hefði verið að láta gera við hann þar.

Rúmeninn bar að byggingaverktakinn hefði fyrst fengið hann til að fara til Íslands til að ná í peninga. Hann fékk þær útskýringar að dýrt væri að senda þær milli landa með Western Union en reiknað með að fjármunirnir væru meiri en einstaklingur mætti flytja milli landa. Hann hefði haldið þessum tilfangi leyndum fyrir Þjóðverjanum í fyrri ferð þeirra þar sem hann átti að fá meira í sinn hlut en sá þýski, sem fékk ferðina og allt uppihald greitt. Sá var fenginn til ferðarinnar, sem hann áleit frí, þar sem sá rúmenski hafði ekki bílpróf. Þá hefði Rúmeninn upphaflega ætlað í ferðina með eiginkonu sinni en hætt við þegar þau fengu ekki barnapössun.

Villtir í þjóðhátíðarstemmingu í Osló

Ferðirnar til Basel og Osló voru sagðar farnar á vegum byggingaverktakans til að sækja fyrir hann teikningar frá arkitektum, því þýsk lög krefjist þess að verktak hitti hönnuð, nokkuð sem íslenski dómarinn taldi ótrúverðugt.

Lýsingar af Noregsferðinni, á þjóðhátíðardeginum 17. maí í fyrra, eru kostulegar. Upphaflega áttu þeir að hitta arkitektinn í Kaupmannahöfn og reyndar bar mönnunum þar ekki saman um hvort verktakinn hefði verið með í för á þeim hluta leiðarinnar. En alltént þá tókst ekki að hitta manninn þar og þurfti því að fara til Oslóar þar sem ferðafélagarnir villtust og lentu í vandræðum, meðal annars vegna hátíðahalda, uns eldra par gat vísað þeim leiðina út úr borginni. Þeir hefðu seint og um síðir hitt arkitektinn, sem hefði vart haft tíma og fengið bílinn lánaðan til að komast heim meðan félagarnir tóku lest á gistiheimilið.

Íslandsferð með ólíkindablæ

Dómaranum þótti frásögn Rúmenans af Íslandsheimsókn hans í júlí heldur ekki trúverðug. Í grófum dráttum gekk hún út á að byggingaverktakinn hefði fengið hann til að fara til landsins, ásamt tveimur öðrum, til að taka út aðstæður á bar í Reykjavík vegna tilboðs í endurbætur á honum. Þegar til landsins var komið bakkaði kráareigandinn út úr öllu saman, þó ekki fyrr en Rúmeninn hafði afhent honum tösku sem hann fékk lánaða frá verktakanum til ferðarinnar og átti að fylla af vinnufötum.

En fyrst hann var á landinu fékk hinn meinti höfuðpaurinn þá hugmynd að fá Rúmenann til að grípa með sér reiðufé, rúmar tuttugu þúsund evrur eða hátt á þriðju milljón íslenskra króna, í reiðufé með sér til baka. Hluti peninganna sendi Rúmeninn í gegnum Western Union til Þýskalands þar sem Þjóðverjinn tók við greiðslunni fyrir hönd verktakans sem síðan átti að koma þeim á endastöð. Taldi dómurinn þetta sýna að samband Þjóðverjans og byggingaverktakans væri meira en Þjóðverjinn bar við yfirheyrslur. Þá taldi dómurinn frásögn Rúmenans af þessari ferð með ólíkindablæ – líkt og um Noregsferðina.

Þjóðverjinn hélt því fram að eftir fyrri ferðina hefði verktakinn sagt honum frá að hann væri í þekktum samtökum sem hann vissi að tengdust glæpastarfsemi, þótt hann gerði sér ekki grein fyrir að eiturlyfjaviðskipti væru þar á meðal. Rúmeninn hafnaði þessu, sagði að ferðafélaga sínum væri farið að förlast eða verktakinn hefði verið að gera sig breiðan – hann ætti ekki einu sinni mótorhjól. Tengslin við samtökin voru aldrei staðfest enda ekki talin skipta máli við úrlausn málsins.

Ólíklegir ferðafélagar

Dóminum fannst áhugavert að mennirnir hefðu saman í langferðir. Rúmeninn talaði takmarkaða þýsku og Þjóðverjinn nær enga ensku. Þeir báru við að þeir hefðu aðeins talað saman um einföld atriði, til dæmis að nota ferðina nú til að fara í Bláa lónið. Í dóminum segir að tvímenningarnir eigi ekki sameiginleg áhugamál, bakgrunn, lífsviðhorf eða annað sem við eigi almennt um fólk sem ferðist almennt saman.

Tvímenningarnir neituðu ætíð allri vitneskju um efnin í bílnum. Ekkert í málinu sýndi heldur beinlínis fram á það. Lögregla taldi ósennilegt miðað við fyrri ferðir þeirra, meðal annars þar sem bíllinn hefði verið skilinn eftir og færður milli stæða í Basel, að mennirnir hefðu ekki haft grunsemdir um tilgang ferða þeirra. Ef ekki þá væru það „merki um mikla grunnhyggni og við skýrslutöku viðurkenndi Þjóðverjanum að honum hefðu þótt ferðirnar furðulegar.

Dómurinn var sama sinnis og taldi ekki sannfærandi að mennirnir hefðu keyrt langar vegalengdir án þess að gera sér grein fyrir hvort varadekk í bílnum. Vart stæðist að þeir hefðu ekki vitað um efnin. Þeir hefðu að minnsta kosti látið í léttu rúmi liggja að þeir vissu að þau væru falin í bílnum. Framburður þeirra væri að auki reikull, ósamrýmanlegur og ósannfærandi. Því væri sannað að þeir hefðu staðið að innflutningi efnanna sem ætluð væru til sölu. Ekki var neitt vitað um viðtakendur efnanna eða vitorðsmenn ferðafélaganna hérlendis.

Hvor þeirra var því dæmdur til sjö ára fangelsisvistar auk þess sem bæði efnin og bíllinn voru gerð upptæk. Þá var þeim gert að greiða sameiginlegan sakarkostnað upp á sex milljónir króna auk þess sem Þjóðverjinn þarf að greiða verjendum sínum þrjár milljónir en Rúmeninn tæpar átta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.