Óskað eftir umsögnum um sautján nöfn

Nafnanefnd nýsameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar hefur sent sautján nöfn til umsagnar hjá Örnefnanefnd. Óskað er eftir umsögn um forliðina Austur-/Eystri-/Eystra-, Dreka og Múla, eftirliðina –byggð, -byggðir, -þing og -þinghá auk þess sem Sveitarfélagið Austri flýtur með í beiðninni.

Í bréfi nafnanefndarinnar kemur fram að alls hafi borist 115 tillögur með 67 hugmyndum áður en frestur til að senda þær inn rann út 7. febrúar síðastliðinn. Nafnanefnd kom saman í kjölfarið og valdi úr sautján nöfn sem Örnefnanefnd hefur til umsagnar.

Til þess hefur nefndin þrjár vikur. Meðal annars er henni ætlað að gæta þess að nöfnin farið eftir íslenskum málreglum, örnefnahegðun og viðmiðum um nöfn sveitarfélaga. Að fenginni umsögn kemur nafnanefndin saman á ný og velur úr nöfn sem íbúar geta kosið um samhliða sveitarstjórnarkosningum þann 18. apríl. Kosningin er leiðbeinandi fyrir sveitarstjórnina sem aftur sendir sína ákvörðun ráðherra til staðfestingar.

Í erindi nafnanefndarinnar er að finna rökstuðning að baki nöfnunum sem send eru.

Í fyrsta lagi er minnst á forliðina Austur-, Eystri- og Eystra sem vísa til landfræðilegrar staðsetningar sveitarfélagsins, sem um leið sameini íbúana meira en nokkuð annað. Þá sé sveitarfélagið eystra en nokkurt annað sveitarfélag, utan Fjarðabyggðar, og sú málnotkun sé vel þekkt á svæðinu.

Vísað er til fordæma fyrir að kenna sveitarfélög við höfuðáttir, svo sem Vesturbyggð. Eins má minna á að bæði Austur-Hérað og Norður-Hérað runnu síðar inn í Fljótsdalshérað.

Á listanum er að finna nafnið Austurbyggð. Sveitarfélag með því nafni var til frá 2003-2006. Það varð til með sameiningu Búðahrepps og Stöðvarfjarðar enn sameinaðist síðar inn í Fjarðabyggð. Heitið er því ekki lengur í notkun.

Forliðurinn Dreka-, vísar til landvættar Austurlands, sem sjá má í skjaldarmerki Íslands.

Forliðurinn Múla-, vísar til þess kennileitis sem svæðið hefur lengst af verið kennt við, fjallið Þingmúla í Skriðdal. Í bréfinu segir að það sé hvað næst því að geta talist miðsvæðis í hinu nýja sveitarfélagi. Undir því hafi verið hinn forni þingstaður og því sé söguleg skírskotun til staðbundinna stjórnvalda.

Um eftirliðina –byggð og –byggðir er vísað til þess að það hafi verið notað á heiti sveitarfélög sem hafi allnokkurt dreifbýli og eitt eða fleiri þéttbýlissvæði, líkt og sé í þessu tilfelli. Fjölmörg slík dæmi eru fyrir hendi og er þar nærtækast að nefna Fjarðabyggð.

Eftirliðurinn –þing hefur skírskotun til stjórnsýslu á Íslandi frá landnámi og eru fordæmi fyrir notkun eftirliðarins í nokkrum sveitarfélögum, meðal annars Norðurþings sem á mörk að hinu nýja sveitarfélagi í norðri.

Um eftirliðinn –þinghá segir að það orð sé sennilega þekktara innan hins nýja sveitarfélags en víðast annars staðar á landinu. Innan Fljótsdalshéraðs eru landssvæðin Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá en sveitin sunnan Búlandstinds, innan við Djúpavog, nefndist áður Hálsþinghá. Orðið hefur því ríka sögulega skírskotun auk þess að vera nokkuð einstakt fyrir svæðið.

Þá bendir nafnanefndin á að hugtakið hafi sögulega verið notað um ákveðið landsvæði þar sem þeir menn bjuggu er áttu til hlutaðeigandi þings að sækja lögum samkvæmt. Hugtakið er þannig stjórnsýslulegt í eðli sínu og lýsandi fyrir eðli sveitarfélaga, sem eru jú svæði sem lúta sérstakri stjórn í umboði íbúanna.

Ennfremur er óskað umsagnar um nafnið Sveitarfélagið Austri. Það er tilvísun í í dverginn Austra sem höfuðáttin er kennd við. Austri er einn fjögurra dverga í norrænni goðafræði sem standa hver á sínum enda jarðarinnar og halda uppi himninum.

Þetta eru nöfnin sem óskað er umsagnar um:

1. Austurbyggð
2. Austurbyggðir
3. Austurþing
4. Austurþinghá
5. Drekabyggð
6. Drekabyggðir
7. Drekaþing
8. Drekaþinghá
9. Eystraþing
10. Eystribyggð
11. Eystribyggðir
12. Eystriþinghá
13. Múlabyggð
14. Múlabyggðir
15. Múlaþing
16. Múlaþinghá
17. Sveitarfélagið Austri

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.