Ósátt við að vera ekki spurð álits á leyfi til umskipunar olíu inni á firði

Hafnarstjórn Fjarðabyggðar telur furðulegt að Umhverfisstofnun geti gefið út leyfi til umskipunar olíu milli skipa innan skilgreinds hafnarsvæðis án þess að spyrja sveitarfélagið leyfis. Umhverfisstofnun telur koma til greina að breyta reglugerð í kjölfar athugasemdanna.

Umhverfisstofnun hefur síðan í febrúar tvívegis gefið út leyfi til að dæla olíu úr flutningaskipinu Vermland yfir í fóðurpramma við laxeldisstöð í Fáskrúðsfirði. Í hvorugt skiptið var haft samband við hafnaryfirvöld í Fjarðabyggð áður, þeim aðeins tilkynnt um leyfið eftir á.

Þá var í mars einnig leyft að dæla olíu frá skipinu í fóðurpramma í Berufirði. Þar var dælt 5.000 lítrum en 10.000 í Fáskrúðsfirði.

Í bókun frá síðasta fundi hafnarstjórnar Fjarðabyggðar er lýst furðu á ákvörðuninni og óskað rökstuðnings á því hvers vegna stofnunin gefi leyfið út án samráðs við sveitarfélagið, auk þess sem málinu er beint til Hafnasambands Íslands vegna mögulegs fordæmisgildis.

Í bréfi Umhverfisstofnunar kemur fram að fengin hafi verið umsögn frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu eins og lög geri ráð fyrir á þeirri viku sem leið frá því sótt var um leyfið þar til það var gefið út. Í því eru gerðar kröfur um mengunarvarnir og að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar verði látin vita af dælingunni með að minnsta kosti sex tíma fyrirvara.

Eðlilegt að hafa skoðun á athöfninni

Helgunarsvæði flestra hafna landsins er í dag skilgreint út að mynni fjarðar og þannig er í Fáskrúðsfirði sem þýðir að leyfið til umskipunarinnar er innan hafnarsvæðis. „Innan þessa svæðis berum við skyldur þegar kemur að atriðum eins og mengunarvörnum. Þess vegna þætti okkur eðlilegt að svona leyfisveiting færi fram í samráði við hafnaryfirvöld. Að stórt skip sé að athafna sig við fóðurprammann er eitthvað sem við myndum að minnsta kosti vilja hafa skoðun á,“ segir Sigurður Ólafsson, formaður hafnarstjórnar.

Annars staðar hefur fyrirkomulagið verið þannig að olíuskip koma með olíu til hafnar þar sem henni er skipað á land áður en henni er skipað út aftur yfir í þjónustubáta sem flytja olíuna yfir út í fóðurprammana. Í þessu tilfelli kemur olían með flutningaskipi sem flytur annan varning, meðal annars fóður, til eldisstöðvanna. „Okkur vitanlega er þetta ekki eitthvað sem hefur verið stundað, við höfum að minnsta kosti ekki séð svona áður,“ segir Sigurður.

Skoða hvort rétt sé að breyta reglugerðinni

Sigurrós Friðriksdóttir, teymisstjóri á sviði náttúru, hafs og vatns hjá Umhverfisstofnun, segir að leyfi til umskipunar olíu hafi borist í samræmi við reglugerð um umskipun olíu á rúmsjó við Ísland frá árinu 2004. Samkvæmt henni er öll umskipun olíu næst landinu nema fengnu leyfi Umhverfisstofnunar og umsögn ráðuneytisins en ekkert kveðið á um samráð við hafnaryfirvöld þótt umskipað sé innan skilgreinds hafnarsvæðis.

Hún staðfestir að stofnuninni hafi borist athugasemdir frá Fjarðabyggðarhafna og stofnunin telji ábendingu um samráð við hafnaryfirvöld eðlilega þar sem hafnarstjóri beri ábyrgð á bráðamengun innan hafnarsvæða samkvæmt lögum. Ábending Fjarðabyggðar verði tekin til frekari skoðunar og í framhaldinu metið hvort lagt verði til að reglugerðinni verði breytt með hliðsjón af því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.