Ormsteiti hefst: Með nýju sniði á nýjum tíma

Ormsteiti, héraðshátíð á Fljótsdalshéraði, hefst um helgina og stendur frammyfir næstu helgi. Nokkur óvissa hefur ríkt um framtíð hátíðarinnar en hún er nú haldin með breyttu sniði á nýjum tíma undir stjórn Halldórs Warén. 

„Það var eiginlega búið að blása þetta af. Ég fékk hugmynd í kringum jólin og sendi bréf upp á bæ um hvernig væri hægt að gera þetta...og nú sit ég hér í súpunni,“ segir Halldór og hlær. 

Auk þess sem prófuð er ný tímasetning fyrir hátíðina í ár er breytt útaf ýmsum venjum. Halldór segist hafa haft ágæta tilfinningu fyrir því hvað virkaði vel eftir að hafa verið tengdur hátíðinni á einn eða annan hátt í fjölda ára. „Ég hef verið nátengdur ormsteiti í mörg ár, sem sláturhússtjóri og ýmislegt og gat svona sirkað út hvað tókst venjulega vel og hvað gekk verr. Í rauninni er þetta svolítil pródótýpa núna, við færum hátíðina um heilan mánuð. Þetta var alltaf í ágúst. Núna erum við aðallega að prófa þessa nýju tímasetningu og á næsta ári verður jafnvel meiri nýbreytni.“

Nokkrir fastir liðir sem hverfa í ár og í staðin koma nýir viðburðir. „Það er til dæmis engin pressa á hverfahátíðir, skreytingar eða grill. Það eru engir leikar. Við erum að prófa ýmislegt nýtt, sumt  hugmyndir sem eru búnar að marinerast með mér í einhvern tíma. Það er sundbíó, þar sem fólk getur legið í sundi og horft á Ókindina eða Litlu hafmeyjuna. Svo er ég núna er að ryðja hérna klettana fyrir ofan hjá mér á Tehúsinu, þar ætlum við að vera með klettasöng með Ingó veðurguð.“

Halldór segir nýja tímasetningu koma til af ýmsum ástæðum. „Ég held að það séu breyttir tímar frá því sem var fyrir 10-15 árum. Þegar Ormsteiti byrjaði var bara rólegt í ágúst en nú er hann jafnvel stærsti mánuður sumarsins. Þá getur verið erfitt að peppa fólk í taka þátt í einhverju svona. Á þessum tíma, eftir miðjan september er fólk kannski frekar að komast í stuð að gera eitthvað aftur eftir sumarið. Það er líka hluti af þessu að ágúst er svolítið óræður mánuður, þú veist ekki alveg hvort er sumar eða haust, en í september er bara komið haust og við vitum það.“

Dagsráin er vegleg og fjölbreytt og segist Halldór leggja mikið uppúr frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja sem standi fyrir viðburðum. „Það er dagskrá beint á vegum Ormsteitis en hátíðin er líka regnglíf yfir allskonar sem er að gerast, það hittir vel á að barnamenningarhátíðin Bras er í gangi, Hús handanna stendur fyrir dagskrá og fleira og fleira. Það er svo mikið skemmtilegt að gerast að það bættist bara endalaust við dagskránna. Það týnast inn viðburðir, einhver hringir og segist vera með ljóðakvöld hvort ég vilji ekki setja það inní dagskránna. Fyrir mér var þetta orðið of mikil mötun á skemmtiatriðum. Þetta verður að koma frá hjartanu hjá þeim sem skipuleggja.“

Halldór segist vilja auka vægi matar og menningar í dagskrá Ormsteitis. „Þú getur farið út að borða á Egilsstöðum í heila viku og  alltaf verið á nýjum veitingastað, við viljum nýta og virkja þessa flóru. Hugsunin er meira svona matur og menning. Þar kemur inn til dæmis Stuðstrætóinn sem ekur á milli helstu veitingahúsa bæjarins með lúðrasveit og söngvara innanborðs.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.