Orkumálinn 2024

Orð Bríetar höfðu áhrif á framgang verkefnisins

Undanfarna mánuði hefur Hús Handanna á Egilsstöðum unnið að þróun nýrrar vöru í tengslum við 100 ára fullveldi Íslands. Verkefnið er unnið í samstarfi við Steinrúnu Óttu Stefánsdóttur vöruhönnuð og Eik á Miðhúsum og framleitt að hluta hjá Pes grafískri hönnun í Fellabæ.


Afurð samstarfsins er brauðmót og hörviskastykki með „kynjamerkinu“ hann/hún/hán ásamt uppskrift af íslensku pönnubrauði og nefnist P L Ú S /M Í N U S H U N D R A Ð. Varan er hönnuð og framleidd í héraði og er úr austfirskum efnivið að stærstum hluta. Verkefnið hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands í byrjun árs 2018.

Lára Vilbergsdóttir er framkvæmdastjóri Húss handanna. „Innblásturinn að hugmyndinni var meðal annars sóttur í Minjasafn Austurlands, en þar og á netinu fór rannsóknarvinnan að mestu fram og við grúskuðum ofan í menningu íslendinga í kringum 1918. Við skoðuðum til dæmis brauðmót sem á árum áður voru notuð til að þrykkja mynstur í pottbrauð. Slíkt var gert til hátíðabrigða, í gjafir og þegar góða gesti bar að garði. Gestrisni er íslendingum í blóð borin og hefur borist milli kynslóða fram á okkar daga. Á flestum bæjum var ekki spurt um stétt né stöðu þegar gest bar að garði en hlúð að viðkomandi af virðingu og alúð,“ segir Lára.

Fleyta gildum milli kynslóða
Lára segir að orð Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í hátíðarræðu á Austurvelli, 7. júlí 1915, hafi einnig haft djúpstæð áhrif á framgang verkefnisins: „Vér heilsum glaðar framtíðinni, þar sem karlar og konur vinna í bróðerni saman að öllum landsmálum, bæði á heimilunum og á Alþingi.“

„Af þessu spratt umræðan um hvaða gildum væri mikilvægast að fleyta milli kynslóða næstu hundrað árin. Samkomulag varð um að gestrisni og virðing fyrir hverri manneskju óháð kyni og stöðu væri til þess fallin að gera alla að betri manneskjum og íslendinga að betri þjóð til framtíðar. Skilaboð vörunnar eru: Deilum brauði með boðskap - deilum kjörum - deilum virðingu og alúð.“

Baka brauð með mikilvægum skilaboðum
Lára segir að þær sem að verkefninu standa ætli að heilsa framtíðinni glaðar í bragði eins og Bríet fyrir rúmum hundrað árum og að þær trúi því að jafnrétti og bræðralag náist að fullu á næstu hundrað árum. „Útgangspunktur átta austfirskra mennta- og menningarstofnana vegna þessarra tímamóta var að velta fyrir sér hvað hugtökin fullveldi og sjálfbærni eiga sameiginlegt. Framlag Húss Handanna og samstarfsaðila inn í þessa pælingu er þessi nýja vara.“

Ljósmynd: Steinrún Ótta Stefánsdóttir. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.