Þorbjörn Broddason: Stjórnmálamönnum frjálst eins og öðrum að hafa skoðun á fjölmiðlum

Þorbjörn Broddason, prófessor í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands, segir stjórnmálamönnum frjálst eins og öðrum að hafa skoðanir á fjölmiðlun og láta þær í ljósi. Grundvallarboðorð góðs fréttamanns að tortryggja það sem honum er sagt.Algengara sé en marga gruni hversu lævíslega stjórnmálamenn reyni að hafa áhrif á fréttaflutning.

 

thorbjorn_broddason.jpg„Það er ekki eðlilegt að pólitíkusar fjarstýri fjölmiðli í eigu almennings og sem almenningur á að geta treyst til að sinna verkefnum sínum af hlutlægni. Hins vegar er pólitíkusum jafnfrjálst og öllum öðrum að hafa skoðun á störfum fjölmiðla og tjá þá skoðun að vild,“ segir Þorbjörn í svari við spurningu Agl.is um hvort eðlilegt sé að stjórnmálamenn tjái sig með jafn afgerandi hætti um fréttaflutning og þeir gerðu á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar í seinustu viku.

Þorbjörn segir það algengara en marga gruni að stjórnmálamenn reyni að hafa áhrif á fréttamat fjölmiðla. „Ég tel að það kunni að vera algengara en margan grunar, en sé yfirleitt gert af klókindum og jafnvel lævísi, sem var sannaralega ekki til að dreifa í þessu tilviki. Kjarni málsins er sá að fréttamenn svamla um í hafsjó eilífra áreita og það, sem hér um ræðir, er svo augljóst að vandalaust er að bregðast við því.“

Spunameistarar jafnmargir fréttamönnum

Þorbjörn varar við þeirri þróun sem stefnir í hérlendis líkt og annars staðar þar sem almannatenglar hafi það hlutverk að koma á framfæri fréttum skjólstæðinum sínum í hag.

„Fréttafólk verður ævinlega að vera á varðbergi gegn öllum hugsanlegum tilraunum til að hafa áhrif á störf þeirra. Heil stétt manna, sem um þessar mundir er orðin að minnsta kosti jafnfjölmenn blaða-og fréttamönnum í sumum löndum, hefur nánast það eina hlutverk að koma hagstæðu fréttaefni á framfæri, sem felur vitaskuld jafnframt í sér að koma í veg fyrir óhagstæðan fréttaflutning.“

Tortryggni grundvallarboðorð

Tortryggni er þannig lykilvopn fréttamanna. „Eitt grundvallarboðorð góðs fréttamanns er að tortryggja það sem honum er sagt. Þessi ágæti austfirski sveitarstjórnarmaður, sem hér um ræðir er blessunarlega laus við allar hugmyndir um pr-klæki og þess vegna er vandalaust að bregðast við umvöndunum hans.

Ein leið og fullkomlega réttmæt er að láta þær sem vind um eyru þjóta. Önnur leið væri að RÚV leitaði til mannsins í góðu tómi og fengi hjá honum upplýsingar, sem gætu nýst í framtíðarfréttaflutningi. Í anda þeirrar nauðsynlegu tortryggni, sem ég nefndi hér áðan, ætti fréttamaðurinn m.a. að hafa þá tilgátu í huga að hin hörðu viðbrögð sveitarstjórnarmannsins stafi af því að raunverulegt ástand sé verra en komið hefur fram.“

Því miður mörg dæmi um að fréttamenn beygi sig

Þorbjörn segir misjafnt hvernig fjölmiðlar takist á við þrýsting og gagnrýni valdhafa. Sumir beygi sig óafvitandi. Hann hvetur fréttamenn til að hugsa til rússneksu blaðakonunnar Önnu Politkovskaju sem var myrt fyrir nokkrum árum, að því er talið fyrir gagnrýnin og afhjúpandi skrif um þarlenda valdhafa.

„Fjölmiðlar eru missterkir og því miður eru mörg dæmi þess, bæði hér á landi og í öðrum löndum, að blaða- og fréttamenn láti beygja sig eða beygi sig jafnvel án þess að taka eftir því. Sjálfsritskoðun er þekkt hugtak í þessu samhengi.

En hitt er sem betur fer einnig velþekkt að blaða- og fréttamenn gangi tvíefldir á hólm við óbilgjörn hagsmunaöfl, hvað sem það kostar, og hafi einungis í huga hina sönnu skjólstæðinga sína, lesendurna (hlustendurna, áhorfendurna). Blaða- og fréttamenn heimsins ættu að hugsa til Önnu heitinnar Politkovskaju á hverjum degi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.