Orkumálinn 2024

Opna fjöldahjálparmiðstöð á Skjöldólfsstöðum

Verið er að opna fjöldahjálparmiðstöð á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal til að taka á móti fólki sem festist í bílum sínum á Möðrudalsöræfum í dag vegna óveðurs. Tjón hefur orðið víða á Austfjörðum í veðurofsanum.

„Við erum að vinna í að koma fólkinu til byggða, bæði til norðurs og austurs,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.

Á sjötta tug fólks varð strandaglópar í bílum sínum á fjöllunum í dag. Það komst ekki áfram vegna veðurs og rúður voru farnar að brotna í bílunum. Fólkinu var komið í skjól í Möðrudal en þaðan stendur til að koma því áfram til byggða. Verið er að opna fjöldahjálparstöðvar, sú að austanverðu verður á Skjöldólfsstöðum.

Björgunarsveitir hafa verið á störfum um allt Austurland í dag og ljóst að tjónið er talsvert. „Það er talsvert tjón á Seyðisfirði, talsvert mikið á Reyðarfirði og eitthvert í Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði,“ sagði Kristján Ólafur í samtali við Austurfrétt að loknum almannavarnafundi á sjötta tímanum.

„Á Reyðarfirði hefur orðið talsvert mikið tjón á meðal annars húsum og bílum. Þar hefur eitthvað dregið úr vindi en um tíma var ástandið erfitt,“ bætir hann við.

Kristján segir að veðurhamurinn hafi verið mestur á miðsvæðinu suður að Fáskrúðsfirði. Minna hefur verið um útköll þar sunnan við en á því svæði virðist veðrið heldur vera að versna.

Mesta hviða dagsins eysrtra samkvæmt mælum Vegagerðarinnar var í Hamarsfirði um hálf fimm í dag, 64 m/s. Þá mældist hviða við Sreiti upp á 53 m/s um hálf tvö og 48 m/s á Fagrdal skömmu fyrr. Víða hafa hviður farið yfir 40 metra.

Fólkinu var komið í skjól í Möðudal. Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.