Opinn fundur um Hálendisþjóðgarð í kvöld

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, er væntanlegur austur í Egilsstaði í kvöld til að halda kynningarfund um frumvarp um Hálendisþjóðgarð. Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hefur lýst áhyggjum yfir að með garðinum verði þrengt að skipulagsvaldi sveitarfélaga og íbúa þeirra.

Verði frumvarpið að lögum mun nýr þjóðgarður taka til starfa í byrjun næsta árs. Hann mun ná yfir um þriðjung landsins, þjóðlendur og friðlýst svæði innan miðhálendis. Hinni nýi þjóðgarður mun meðal annars taka yfir allt það svæði sem tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði í dag.

Frumvarpið var sett inn í Samráðsgátt stjórnvalda fyrir jól. Frestur til að senda inn umsagnir hefur verið framlengdur til 20. janúar, en fundaferð ráðherrans hefur tafist vegna veðurs.

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps er meðal þeirra sem sent hafa inn athugasemdir. Þær snúa meðal annars að því að skipulags sveitarfélaga verði ekki skert.

Í umsögninni segir að talsverð andstaða sé við stofnun Miðhálendisþjóðgarðsins meðal þeirra sveitarfélaga sem liggja næst honum. Fljótsdælingar segja að ekki hafi verið þörf rök fyrir hvers vegna þörf sé á hinum nýja þjóðgarði, þeirri spurningu verði að svara áður en lengra verði haldið. Reynslan sýni að almennt skorti fjármuni til reksturs og uppbyggingar þjóðgarða.

Telja ekki ljóst hver þörfin er á þjóðgarðinum

Fljótsdælingar hafa gagnrýnt að þjóðgarðar skerði skipulagsvald sveitarfélaga og verði til þess að „æðra stjórnvald gangi fram með ofríki gagnvart sveitarfélögum og íbúum.“

Fljótsdælingar gagnrýna einnig þjóðgarðsmörkin og vilja að þau miðist við núverandi mörk Vatnajökulsþjóðgarðs innan hreppsins. Sömuleiðis er mótmælt að ekki standi til að ráðstafa jörðum eða jarðarhlutum á meðan málið sé til meðferðar. Hreppsnefndin telur að ráðstafa eigi jörðum til ábúðar og landbúnaðarafnota.

Þá er varað við því að lokað verði á alla frekari orkuvinnslu innan þjóðgarðsins. Slíkt væri stór ákvörðun sem snertir hag allra landsmanna og því þörf á frekari samtali áður en hún verði tekin.

Hreppsnefndin segist almennt fylgjandi hugmyndum um aðkomuleiðir að þjóðgarðinum en hvetur þó til að ráð verði gert fyrir heilsársvegi norðan Vatnajökuls sem tengi Austur- og Norðausturland við Suðurland. Eins verði horft til þess að með hlýnun jarðar geti svæði í dag sem teljast óbyggileg breyst þannig að hægt verði að nýta þau.

Fundurinn hefst klukkan 19:30 í Valaskjálf í kvöld og er öllum opinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.