Orkumálinn 2024

Opin fyrir hugmyndum til að minnka kolefnisspor skólamáltíða

Síðustu daga hefur skapast umræða um skólamáltíðir vegna áskorunar sem Samtök grænkera á Íslandi sendu á ríki og sveitarfélög til að hvetja til aðgerða vegna hamfarahlýnunnar. 

Samtök grænkera vilja að dregið sé úr framboði á dýraafurðum og framboð grænkerfæðis aukið á móti enda sé kolefnisspor þess lægra. Bæjarráð Fjarðarbyggðar samþykkti í vor bókun þar sem rekstraraðilar mötuneyta sveitarfélagsins eru hvattir til að nýta innlend matvæli eins og kostur er, sérstakega grænmeti, kjöt og fisk. 

Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs Fjarðarbyggðar segir aðalatriðið vera að bjóða uppá hollan mat en einnig sé mikilvægt að velja umhverfisvæna kosti og styðja innlenda framleiðslu. „Fjarðabyggð er heilsueflandi samfélag og við leggjum áherslu á að matur í skólum sveitarfélagsins sé hollur og góður. Matseðlar í leik- og grunnskólum eru hannaðir af næringarfræðingi, það er sami matseðill allstaðar og hann byggir á ráðleggingum um mataræði frá Embætti landlæknis. Í ljósi aukinnar umræðu um þátt matvælaframleiðslu í losun gróðurhúsalofttegunda er eðlilegt að við veltum fyrir okkur hvert kolefnisspor matvæla er og reynum að draga úr losun með því að velja umhverfisvænstu kostina. Það er hluti af hugsuninni á bakvið þessa bókun en auðvitað er best fyrir alla að nýta hráefni úr okkar nærumhverfi. Það er ferskasta hráefnið, styður við innlenda framleiðslu og hefur þá minna kolefnisspor en sambærileg vara. Auðvitað er langbest þegar er hægt að nýta hráefni héðan úr fjórðungnum. Þetta helst allt í hendur.“

Eydís segist ekki vita til þess að Fjarðabyggð hafi fengið sérstaka áskorun frá Samtökum grænkera á Íslandi en er opin fyrir hugmyndum til að minnka kolefnisspor skólamáltíða. „Við eigum klárlega alltaf að vera opin fyrir því að leita leiða til að minnka kolefnissporið okkar. Eins og matseðillinn er settur upp er lögð mikil áhersla á grænmeti og ávexti, að það sé alltaf aðgengilegt í mötuneytum. Það er best ef við getum fundið leiðir til að láta þetta allt fara saman en það þarf að skoða í samráði við næringarfræðinga og þá sérfræðinga á sviði umhverfismála. Þetta snýst líka um að kenna börnunum okkar að læra að meta umhverfisvænni matvörur. Þetta er auðvitað það sem við munum þurfa að gera í framtíðinni, á komandi árum, að velja umhverfisvænni kosti. Við eigum alltaf að vera tilbúin að skoða þessa hluti.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.