Olga Vocal Ensemble á ferð um Austurland

Alþjóðlegi sönghópurinn Olga Vocal Ensemble heldur þrenna tónleika á Austurlandi á næstu dögum. Tónleikarnir bera yfirskriftina „It‘s a Woman‘s World“ og fagnar listakonum síðustu 1000 ára, líkt og samnefnd plata hópsins sem kom út í byrjun sumars.

Þema tónleikanna er femínismi. Á efnisskránni eru meðal annars lög eftir Hildegard von Bingen sem fædd var árið 1098 og Barböru Strozzi sem var uppi á 16. öld.

Einnig verða flutt lög sem eru hvað þekkust í flutningi frægra söngkvenna, má þar nefna Ninu Simone, Edith Piaf og Billie Holliday. Einnig eru á efnisskránni fjögur lög sem samin voru sérstaklega fyrir sönghópinn.

Olga Vocal Ensemble sönghópurinn hefur verið starfræktur frá árinu 2012. Hópurinn hélt sína fyrstu tónleika á Íslandi sumarið 2013 og hefur heimsótt Ísland á hverju ári síðan þá.

Hópurinn er skipaður 5 strákum sem allir eru búsettir í Hollandi, Hollendingunum Jonathan Ploeg og Arjan Lienaerts, Englendingnum Matthew Lawrence Smith, rússneska Bandaríkjamanninum Philip Barkhudarov og Íslendingnum Pétri Oddbergi Heimissyni.

Fyrstu tónleikarnir verða í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði klukkan 20:30 í kvöld en þeir marka jafnframt upphaf 20 ára afmælissumars tónleikaraðar Bláu kirkjunnar.

Á laugardagskvöld kemur hópurinn fram í Havarí í Berufirði en Austfjarðarúntinum lýkur í Egilsstaðakirkju klukkan17:00 á sunnudag. Þeir tónleikar eru jafnframt hinir síðustu í röð Tónlistarstunda 2018 í Egilsstaða- og Vallaneskirkjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.