Ólafur Valgeirsson jarðsunginn í dag

Ólafur Björgvin Valgeirsson, sundlaugarvörður í Selárdal verður jarðsunginn frá Vopnafjarðarkirkju í dag. Ólafur andaðist á heimili sínu 6. apríl síðastliðinn.

Ólafur fæddist á Akureyri 20. janúar 1955, ólst upp í Breiðdal áður en hann flutti um fermingu í Álftafjörð. Til Vopnafjarðar flutti Ólafur árið 1980 og bjó þar síðan.

Hann hóf störf til sjós en tók árið 1991 við starfi sundlaugarvarðar í Selárdal. Fyrir störf sín þar er hann kunnastur en þar starfaði hann til dánardags og tók vel á móti þeim sem sóttu laugina.

Ólafur sinnti sundlauginni á sumrin en starfaði líka lengi hjá Jónsveri, vinnustað fyrir fólk með skerta starfsgetu, á veturna.

Hann var afar virkur í félagsmálum Vopnfirðinga. Þannig var Ólafur meðal annars formaður Sjómannafélags Vopnafjarðar, formaður Sjálfsbjargar Vopnafirði og formaður Rauða krossdeildar Vopnafjarðar. Hann var formaður sóknarnefndar Vopnafjarðarkirkju og sat á kirkjuþingi. Þá var hann formaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga.

Vegna útfarar Ólafs er skrifstofa Vopnafjarðarhrepps lokuð eftir hádegi í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar