Orkumálinn 2024

„Okkur finnst þörf á að ræða geðheilbrigðismál“

Á morgun, föstudag, verður opið geðheilbrigðisþing í Valaskjálf á Egilsstöðum undir yfirskriftinni Batnandi fólki er best að lifa: Samtal um geðheilbrigði. Það eru Rauði krossinn á Héraði- og Borgarfirði eystra, HSA, félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs og Hugarafl sem standa að þinginu.


Dagskráin hefst klukkan níu með erindinu „Hver er staðan á geðheilbrigðismálum á Austurlandi“ og eftir það rekur hver fyrirlesturinn annan, allt til klukkan 16:00. Þingið er öllum opið. Ragnhildur Rós Indriðdadóttir er formaður Rauða krossins á Héraði og Borgarfirði. 

„Þetta er skipulagt núna sem sérstakur viðburður, ég veit að svona þing og geðheilbrigðisdagar hafa verið haldnir hér á Austurlandi á síðustu árum, oft í kringum Alþjóðalega geðheilbrigðisdaginn sem var í gær, 10.10. Þingið er því ekkert rökrétt framhald af einu eða neinu ef svo má að orðið komast, einungis sprottið upp af því að okkur finnst þörf á að ræða geðheilbrigðismál. Ef marka má rannsóknir og kannanir virðist sem þeim fari fjölgandi sem eru að kljást við hina ýmsu geðkvilla og þetta á við um flesta aldurshópa. Þessi mál eru mikið til umræðu í samfélaginu almennt þessi missirin, hvernig þjónusta á sviði geðheilsu eigi að vera, hvaðan ætti að veita hana, hver og hvernig,“ segir Ragnhildur Rós. 


Bati verður í brennidepli
Yfirskrift málþingsins er „Batnandi fólki er best að lifa" og segir Ragnhildur Rós að „bati“ sé það sem kastljósinu verði beint að í ár. „Hugmyndafræði Hugarafls snýst um valdeflingu, hvernig megi efla einstaklinginn til að finna styrk sinn og vinna með hann og flestir fyrirlesarar verða með innlegg á þeim nótunum.“

„Ég veit að það er margt í deiglunni“
Hvar erum við stödd í geðheilbrigðismálum á Austurlandi í dag? „Það er ekki gott að segja, kannski komumst við að því á morgun. Ég veit að það er margt í deiglunni. HSA er til dæmis að auka þjónustuna á þessu svið ef ég skil rétt, hér á Héraði er mann- og geðræktarstöðin Ásheimar þar sem fer fram eflandi starf, Austurlandsleiðin svokallaða hefur verið tekin upp á starfssvæði Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs, en þar er stefnt að því að grípa sem fyrst inn í vanda barna og hjálpa þeim og fjölskyldum þeirra.“

Andlegt hjartahnoð
Ragnhildur Rós vill svo einnig benda á að um helgina verður Hugaraflsfólk með tveggja daga námskeið í Ásheimum á Egilsstöðum sem heitir Andlegt hjartahnoð. „Þar er leiðbeint um hvernig má aðstoða fólk sem líður illa andlega, hefur lent í áfalli eða þvíumlíkt. Þar er valdeflingin í fyrirrúmi, í raun getum vill öll hjálpað og aðstoðað meðbræður okkar og systur en ekki verra að fá smá undirstöðu á svona námskeiði. Enn eru fáein pláss laus og má skrá sig á netfangið kristinehjaegilsstadir.is“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.