Óheyrilega spennandi að fylgjast með talningunni

Fimm atkvæði skildu framboðin tvö á Vopnafirði þegar talningu lauk þar í sveitarstjórnarkosningunum á laugardag. Oddviti Framsóknar og óháðra segir vilja til að vinna með minnihluta Vopnafjarðarlistans að þeim verkefnum sem fyrri liggja.

„Við vorum þarna nokkur að fylgjast með talningunni, það var óheyrilega spennandi að vera þarna. Við erum mjög ánægð með úrslitin þótt ekki hafi munað miklu,“ segir Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti B-lista.

Þegar yfir lauk fékk B-listinn 190 atkvæði en H-listi Vopnafjarðarlistans 185. „Þetta varð svona naumt þegar utankjörfundaratkvæðin duttu inn. Fyrir þau vorum við með um 20 atkvæði í forskot,“ útskýrir Axel.

Í samtali við Mbl.is á laugardagskvöld sagði hann að úrslitin væru ákall um samvinnu og á það yrði hlustað. „Við ætlum að hitta hinn listann mjög fljótlega. Það hefur ekki ekki orðið af því enn, við erum upptekin í vinnu og öðru. Við viljum vinna með þeim enda munurinn lítill.“

Munurinn er lítill á fleiri vígstöðvum. Eins og Austurfrétt greindi frá voru tvö pör og tvíburasystur sem skiptust á milli listanna, sem hvor var með fjórtán einstaklingum. „Við erum um margt svipuð og vitum hvað þarf að gera í sveitarfélaginu.“

Eitt af því eru fjármálin en ríflega 30 milljóna tap varð á samstæðurekstri sveitarfélagsins miðað við ársreikning sem staðfestur var í síðustu viku. „Reksturinn er þungur og við þurfum að skoða hann en við bjóðum upp á góða þjónustu og viljum gera það áfram.“

Axel Örn er einn af þremur fulltrúum sem sitja áfram í sveitarstjórn, hinir eru Bjartur Aðalbjörnsson og Björn Heiðar Sigurbjörnsson af Vopnafjarðarlista. „Fyrstu verkin verða að koma nýja fólkinu inn í störf sveitarstjórnar og málefni. Það koma inn fjórir nýir fulltrúar, allt skemmtilegt og gott fólk. Samhliða þessum viljum svið skoða breytingar á nefndum.“

Þegar liggur fyrir að Sara Elísabet Svansdóttir verði áfram sveitarstjóri en hún tók við á miðju kjörtímabili. „Ég get ekki lofað hana nógu mikið. Hún hefur staðið sig vel, er harðdugleg og skemmtileg. Ég hef fengið tækifæri á að vinna með henni og við erum spennt fyrir að hafa hana áfram svo það er borðleggjandi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.