Örninn er fundinn

Tréskúlptúrinn Örninn, sem stolið var af stalli sínum við Fagradalsbraut á Egilsstöðum í byrjun síðustu viku, er kominn í leitirnar.

Talið er að Erninum hafi verið stolið að morgni þriðjudagsins 4. ágúst en brotthvarf hans var síðar þann dag tilkynnt til lögreglu sem hóf þá rannsókn sína.

Eftirgrennslanin leiddi til þess að Erninum var skilað þremur dögum síðar. Í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi kemur fram að hann hafi þá fundist við hringtorgið sem þjóðvegur 1 liggur um á Kirkjubæjarklaustri.

Örninn er nú í vörslu lögreglunnar á Suðurlandi og bíður heimferðar. Skemmdir urðu á stöplinum sem Örninn sat á en verkið sjálft er talið óskemmt.

Líkur eru taldar á að um bernskubrek fullorðinna hafi verið að ræða en verkið er um 70 cm á hæð og um 50 kg að þyngd. Það var gert af Grétari Reynissyni en er í eigu Fljótsdalshéraðs. Málið er enn í rannsókn.

Mynd: Grétar Reynisson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.