Orkumálinn 2024

„Öll ágreiningsefni leyst í góðu“

„Það væri ofsögum sagt að segja að það sé mikill ágreiningur okkar á milli, segir Finnbogi Rútur Þormóðsson, prófessor emeritus og einn frambjóðenda á nýstofnuðum Vopnafjarðarlista.

Á Vopnafirði eru tveir flokkar í framboði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á laugardaginn kemur. Annars vegar Framsóknarflokkur og óháðir og hins vegar Vopnafjarðarlistinn en síðarnefnda framboðið er aðeins rúmlega mánaðargamalt. Nokkra athygli og skemmtan hefur vakið að á framboðslistum þessara flokka má finna tvíburasystur sem bjóða sig fram á sitt hvorum listanum og sömu sögu má segja um tvö önnur pör í Vopnafirði.

Sigrún Lára og Finnbogi

Hjónin Sigrún Lára Shanko, listakona, og Finnbogi Rútur Þormóðsson, prófessor, hafa búið í Vopnafirði í nokkur ár og þau taka slaginn á sitt hvorum listanum að þessu sinni. Sigrún Lára er í hugsanlegu baráttusæti, fjórða sæti á lista Framsóknar og óháðra, meðan Finnbogi segist meira til skrauts í ellefta sæti á lista andstæðinganna.

„Ég vissi reyndar ekki að ég væri svona ofarlega á listanum fyrr en nýlega,“ segir Sigrún Lára, en hjónin viðurkenna bæði að hafa ekki íhugað sveitarstjórnarstörf áður en leitað var til þeirra fyrir þessar kosningar. Sigrún hefur engu að síður tekið ríkan þátt í kosningaundirbúningnum og nýtti tækifærið þegar dreifa átti bæklingi um helstu framboðsmálin að heimsækja og kynnast fólki í sveitunum í kring.

„Auðvitað tek ég slaginn ef til kemur. Maður svíkst ekkert undan merkjum og það er heiður ef fólk treystir manni til að hafa áhrif fyrir sína hönd næstu fjögur árin. Það er eitt og annað sem færa má til betri vegar í sveitarfélaginu og nægir kannski að nefna samgöngumál enda við afar lokuð af hér í firðinum. Þá eru menningarmál mér hugleikin auðvitað og fjölbreytt atvinnulíf er eitt markmiðið.“

Finnbogi, sem starfar í Háskólanum á Akureyri, segir að í grunninn sé ekki ýkja mikill munur á þeim tveimur framboðum sem í boði eru og alls ekki nógu mikill munur til að þau hjónin deili eða rífist um hlutina.

„Þó um tvö framboð sé að ræða þá eru áherslumálin í svona litlu samfélagi eins og hér ósköp svipuð. Allir vilja gera sveitarfélagið betra og munurinn felst í því hvað leiðir á að fara að því marki. Við leysum öll ágreiningsefni í góðu milli okkar fljótt og örugglega ef slíkt kemur til.“

Dagný og Berglind

„Hvað foreldrar okkar kjósa veit ég ekki en eigum við ekki að vona að við fáum eitt atkvæði hvor,“ segir Berglind Steindórsdóttir, hjúkrunarfræðingur, en hún situr í sjötta sæti á Vopnafjarðarlistanum. Tvíburasystir hennar, Dagný Steindórsdóttir, fatahönnuður og sjúkraliðanemi, situr hins vegar í tíunda sæti á lista Framsóknarflokks og óháðra.

Aðspurðar hvort slíkir flokkadrættir kalli ekki á hörð átök og ágreining hlæja þær báðar.

„Því fer fjarri,“ segir Dagný, sem segir að engin sérstök ástæða sé fyrir því að þær sitja í andstæðum hópum. Milli þeirra tveggja sé ekki mikill ágreiningur og sama megi segja um framboðin tvö. Seta þeirra á mismunandi listum sé meira til að vera með og sýna áhuga á því mikilvæga starfi sem sveitarfélög sinna fyrir íbúa sína.

„Það brenna mikið til sömu málin á íbúum hvorn flokkinn sem fólk setur sig í og ef baráttulisti þessara framboða er skoðaður þá ber nú ekki mikið á milli þeirra. Okkur langaði báðum að leggja okkur litlu lóð á vogarskálarnar og það gerðum við með þessum hætti.“

Systurnar eru einnig sammála um að atvinnumál skipti miklu máli í sveitarfélaginu og þar sérstaklega að auka fjölbreytni þeirra starfa sem á staðnum eru. Vopnafjörður sé kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vill vinna störf án staðsetningar. Þá sé orðið áríðandi að taka á ferðaþjónustumálum og leysa eilífðarvandann með tjaldsvæði bæjarins.

Jenný Heiða og Arnar

Annað vopnfirskt par sem situr beggja vegna borðsins í kosningum á Vopnafirði eru þau Jenný Heiða Hallgrímsdóttir, nemi, og Arnar Ingólfsson, lögreglumaður. Jenný er í sjöunda sæti lista Framsóknar og óháðra meðan Arnar er í níunda sætinu á Vopnafjarðarlistanum.

Hvorugt þeirra tekur mikinn þátt í kosningabaráttunni og verða líklega ekki á Vopnafirði á kosningadag því þau eignuðust barn í byrjun vikunnar.

Arnar segir ólíklegt að þau nái inn í sveitarstjórn enda hafi það ekki verið sérstakt keppikefli. Hans seta á Vopnafjarðalistanum hafi verið meira að sýna því stuðning að fleiri en eitt framboð sé í boði fyrir Vopnfirðinga.

„Það er hins vegar rétt á baráttumál beggja framboða eru mikið til þau sömu. Mér kæmi ekki á óvart að það verði mikið og gott samstarf og lítið um deilur ef báðir listar koma fólki að í sveitarstjórn. Við erum öll að róa í sömu áttina.“

 MG 6478

Tvíburasysturnar Dagný og Berglind segja mikilvægt að taka þátt í að bæta nærumhverfið og þess vegna bjóði þær sig fram.

 MG 6485

Mynd 2: Hjónin Finnbogi og Sigrún Lára rífast helst ekki um neitt heimavið og allra síst pólitík þó bæði séu í framboði hjá mismunandi framboðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.