Oddvitinn Ólafur tekur ekki sæti í sveitarstjórn Vopnafjarðar

Ólafur Ármannsson, sem leiddi K-listann í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum í Vopnafjarðarhreppi, hefur látið af því embætti og ætlar ekki að taka sæti í nýrri sveitarstjórn. Hann segir umræðuna eftir kosningar hafa snúist um persónu hans og sé illa særður. Því vilji hann ekki koma í veg fyrir þá samstöðu sem hugsanlega sé hægt að ná í sveitarstjórn á kjörtímabilinu.

 

ImageÞetta kemur fram í yfirlýsingu sem Ólafur sendi Vopnfirðingum í gær. Hann segist þar hafa ýmislegt reynt á löngum ferli í sveitarstjórn og með tímanum lærst að takast á við ýmislegt. Nú sé hann illa særður þar sem persóna hans hafi komið í veg fyrir að K-listanum væri hleypt að samningaborðinu um myndun meirihluta.

"Að afloknum kosningum hefur umræðan snúist um persónu mína – og fyrir því eru áreiðanlegar heimildir - nafn mitt hefur ítrekað verið nefnt sem  ástæða þess að K-listinn er einn útilokaður í samstarfi flokka á Vopnafirði en alls  ekki að stefna og málefni K-listans falli illa að skoðunum framsóknarmanna. Þrátt  fyrir harðan skráp eftir áralangt starf í ykkar þágu er undirritaður illa særður;  eftir mikla ígrundun og viðræður við mitt samstarfsfólk hef ég tekið þá ákvörðun að  segja af mér sem oddviti K-listans og tek ekki sæti í nýrri sveitarstjórn."

Þetta segist hann gera því hann vilji ekki að persóna hans komi í veg fyrir þá samstöðu í sveitarstjórn sem "öllu skiptir á erfiðum tímum."

Hann tekur fram að í stefnuskrám allra framboða hafi komið fram að grunnstoðir sveitarfélagsins væru sterkar og yrðu varðar. Hann segist stoltur af því að hafa, ásamt fleirum, tekið þátt í uppbyggingu undanfarin ár.

"Ég yfirgef því sviðið hrærður en ánægður með það verk sem unnið hefur verið á  undanförnum árum, oft við mjög erfiðar aðstæður. Nýkjörinni sveitarstjórn óska ég  alls hins besta við þá erfiðu vinnu sem framundan er. "

Á Vopnafirði hefur náðst samstaða um myndum meirihluta Framsóknarfokks, Sjálfstæðisflokks og Nýs afls. K-listinn verður einn í minnihluta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.