Óbreytt framboð hótelherbergja en nýtingin verri en annarsstaðar á landsbyggðinni

Austurland er eini landshlutinn þar sem framboð á hótelherbergjum í maímánuði dróst ekki saman milli ára, heldur hélst óbreytt.

Alls voru í boði 7.888 hótelherbergi á landinu öllu, samanborið við 10.738 í sama mánuði í fyrra. Munurinn skýrist af lokun hótela en 47 hótel voru lokuð á landinu í maí. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum um gistinætur sem Hagstofan birti nú á dögunum.

Hótelherbergi á Austurlandi voru 441 talsins í maí, og fjöldi þeirra óbreyttur milli ára líkt og fyrr segir. Gistinóttum á hótelum fækkaði verulega milli ára, líkt og við mátti búast, en samdrátturinn á landinu öllu nam 88%. Á Austurlandi var þessi samdráttur 83%, mestur var hann á höfuðborgarsvæðinu, 95%, og 94% á Suðurnesjum. Vesturland og Vestfirðir koma best út í þeim samanburði en samdráttur þar var 61%.

Svipaða sögu er að segja af nýtingu á hótelum í maí, en hún var rétt rúm 5% á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum en 15,6% á Vesturlandi og Vestfjörðum, 14,5% á Norðurlandi og 11,1% á Suðurlandi. Nýting á hótelum á Austurlandi var á sama tíma 7,9%.

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum á landinu, ekki aðeins á hótelum, voru um 76.000 í maí en þær voru um 660.000 í sama mánuði árið áður. Um 87% gistinátta voru skráðar á Íslendinga, eða um 66.000, en um 13% á erlenda gesti eða um 10.000 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 51.300, þar af 37.100 á hótelum. Gistinætur á öðrum tegundum gististaða voru um 24.000.

Á vef Hagstofunnar kemur þó fram að áætlun fyrir aðrar tegundir gististaða en hótel sé um þessar mundir háð meiri óvissu en vanalega fyrir tilstilli örra breytinga á framboði og nýtingu og því rétt að taka þeim tölum með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur liggja fyrir í lok árs. Þá sé ekki hægt að áætla erlendar gistinætur á stöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.