Óásættanlegt að þurfa að treysta á eina sjúkraflugvél

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs telur óásættanlegt að einungis ein flugvél sé til staðar til að sinna sjúkraflugi fyrir allt landið og kallar eftir að sem fyrst verði mótuð framtíðarstefna í sjúkraflutningum. Þrýst er á að þyrlur verði til staðar á Egilsstöðum til að auka öryggi íbúa í fjórðungnum.

„Það þarf ekki ekki mikla flækju til að sjá að það geta komið upp krítísk tilfelli, til dæmis ef flugvélin er í útkalli á Vestfjörðum á sama tíma og hér koma upp alvarleg veikindi eða slys.

Hátæknisjúkrahúsinu eru annars vegar í Reykjavík, hins vegar á Akureyri. Það er skilyrðislaus réttur íbúa á þessu landssvæði að ef og þegar við þurfum á þeim að halda að hægt sé að greina ástand viðkomandi sem fyrst og koma honum í bestu meðferð sem hægt er. Til þess þurfum við öruggt sjúkraflug,“ sagði Gunnar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í umræðum í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs fyrr í mánuðinum.

Flest sjúkraflug frá Austurlandi

Á það hefur verið bent að aðeins ein sjúkraflugvél er staðsett á landinu og það á Akureyri, samkvæmt samningum við Mýflug, í kjölfar útboðs. Fyrirtækinu er skylt að hafa varavél til taks, sem gjarnan hefur verið flugvél Isavia. Mýflug sinnir flestum sjúkraflugum en þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa einnig verið notaðar í undantekningartilfellum.

Austurland er sá landsfjórðungur sem treystir hvað mest á sjúkraflug, miðað við tölur sem finna má í fyrirspurnum sem lagðar hafa verið fram á Alþingi. Umfang flugsins hefur aukist síðustu ár. Árið 2015 voru farið 599 sjúkraflug en þau voru 863 árið 2017, eða tæp 2% allra sjúkraflutninga. Fyrri helming þessa áratugar voru flugin að meðaltali 460 á ári.

Miðað við þingskjölin eru ekki til nýlegar tölur um hvaðan sjúkraflugin eru farin. Árið 2015 voru hins vegar 193 fluganna frá Austurlandi, eða tæpur þriðjungur allra sjúkrafluga. Næst flest sjúkraflug voru farin frá Norðurlandi eystra, 164 talsins. Í þessum fyrirspurnum kemur einnig fram að aðalflugvél Mýflugs hafi verið notuð í 90-95% sjúkrafluga.

Samkvæmt samningi Mýflugs við Sjúkratryggingar Íslands skal sjúkraflugvél tilbúin til flugs innan 35 mínútna frá útkalli í hæsta forgangi (F1 og F2). Berist bráðaútkall á meðan öðru sjúkraflugi stendur er tímafresturinn 105 mínútur. Samkvæmt tölum frá árunum 2012 og 2013 voru flug utan 35 mínútna tímamarkanna 10% á ári og utan 105 mínútnanna 3%.

„Þegar upp kemur bráðatilfelli er mikil bið eftir þessu eina flugi sem í boði er, hvað þá ef vélin er upptekin. Við erum við flugvöllinn og sinnum bráðatilfellum. Við þurfum að vera vel tækjum búin en það vantar mikið upp á aðstaðan sé nærri nógu góð,“ sagði Berglind Hrapa Svavarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og hjúkrunarfræðingur.

Þyrlur gæslunnar nýtast ekki eystra

Í bókun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs er lýst þeirri skoðun að brýnt sé að komið verði upp aðstöðu fyrir hluta útgerðar þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar á Egilsstaðaflugvelli, eða að þar verði staðsett sérstök sjúkraþyrla til að sinna bráðatilfellum á Austurlandi. Á það hefur áður verið þrýst, meðal annars af Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi.

„Það eru ótrúleg forréttindi fyrir þá íbúa sem búa á suðvesturhorninu að þyrlur Landhelgisgæslunnar, sem rekur margar þyrlur, séu komnar af stað í hvelli. Þær hafa bjargað mannslífum og fólki í vanda. Hér á Austurlandi höfum við ekki þessa þjónustu nærri, það tekur tíma að koma þeim austur. Svo má minna að hér fyrir utan er stórt hafsvæði, óvarið.

Það er mikilvægt að fólk sem hér býr finni sig öruggt hér. Við eigum öll sama rétt til öryggis sem búum í þessu landi,“ sagði Gunnar.

Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra um aukna aðkomu þyrla að sjúkraflugi skilaði skýrslu í ágúst í fyrra. Í niðurstöðum hópsins kemur fram að eigi sérhæfðar sjúkraþyrlur nýtist best í 50-250 km radíus frá heimahöfn. Hentugast var talið að hafa slíka þyrlu í Reykjavík í ljósi þess að flestir sjúkraflutningar í hæsta forgangi eru á Suður- og Vesturlandi. Selfoss var einnig talinn koma til greina ef lögðu yrði áhersla á þjónustu við Vestmannaeyjar.

Flugvél Mýflugs á Norðfjarðarflugvelli árið 2017. 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.