Óánægja með Vegagerðina á Vopnafirði

„Ég held það þurfi ekkert mikið ímyndunarafl til að vita að ef ytri garðurinn gefur sig meira eða jafnvel alveg þá fara fljótt í hönd hér myrkir mánuðir,“ segir Axel Örn Sveinbjörnsson, sveitarstjórnarmaður á Vopnafirði.

Vegagerðin, sem hefur meðal annars á sinni könnu brimvarnargarða í sjávarbyggðum landsins, hefur sent sveitarstjórninni minnisblað sitt um áætlanir um viðgerðir á brimvörnum í höfn bæjarins sem urðu illa úti í miklu óveðri í janúar síðastliðnum. Þá brotnaði duglega bæði úr ytri og innri brimvarnargarði Vopnafjarðar en bærinn reiðir sig að stórum hluta á sjávarútveg enda er þar fyrirtækið Brim með stóra vinnslu.

Furðu vakti meðal minnihluta Vopnafjarðarlistans í bænum að sérfræðingar Vegagerðarinnar lögðu aðeins til lagfæringar á innri brimgarðinum og kemur fram í sama minnisblaði að hönnun muni fari fram með haustinu. Lét minnihlutinn bóka athugasemdir þó ánægja væri með úrbætur á innri garðinum. Sveitarstjórn öll samþykkti athugasemdir minnihlutans.

Axel segir flesta sveitarstjórnarfulltrúa hafa verið hissa á þessum hugmyndum Vegagerðarinnar en hann tekur fram að um sérfræðinga sé að ræða sem hugsanlega viti betur.

„Það komu tveir eða þrír stormar síðar í vetur eftir að brimgarðarnir skemmdust í janúar og ég vitnaði sjálfur uppsjávarskip að landa sem hoppuðu og skoppuðu við löndun. Mér finnst segja sig sjálft að ekki dugi til að lagfæra aðeins innri garðinn.“

Axel segir líka almenna óánægju með loðið orðalag um hvenær framkvæmdin hefjist eins og minnihlutinn benti jafnframt á.

„Þeir segja að hönnun muni fara fram á haustmánuðum og auðvitað er kannski ekki óþekkt að framkvæmdir hefjst strax í kjölfarið en oftar en ekki tekur það lengri tíma held ég. Það gæti þýtt að höfnin verði illa varin allan næsta vetur og það líst okkur ekki á.“

Sveitarstjórn hefur óskað eftir fundi með fulltrúum Vegagerðarinnar vegna málsins.

Ytri og innri brimgarðarnir sjást vel á þessari mynd frá því í júní. Báðir skemmdust verulega í óveðrinu miklu í byrjun janúar. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.