Óánægja með breyttan opnunartíma sundlauga

Frá og með 21. febrúar var opnunartími íþróttamiðstöðva Fjarðabyggðar styttur þannig að íþróttamiðstöðvar opna klukkan 07:00 í stað 06:00 alla virka daga. Töluverð óánægja er með nýjan opnunartíma og undirskriftalisti til að mótmæla breytingunni settur af stað í Neskaupstað og á Eskifirði.

Hanna Sigga Magnúsdóttir og Sigríður Þórbjörg Vilhjálmsdóttir, morgunhanar, voru ekki ánægðar með þessa breytingu og komu af stað undirskriftalista til að mótmæla breyttum opnunartíma Stefánslaugar.

Hanna Sigga upplifir að bæði sundlaugin og líkamsræktin hafi verið mikið notuð á morgnanna. „Ég upplifi að það væru þó nokkuð mörg sem væru að mæta í rækt og sund á morgnana, eldri borgarar, skólabörn og fólk sem þarf að mæta í vinnu klukkan 8,” segir Hanna Sigga.

Hanna Sigga segir að sundlaugin og líkamsræktin opni ekki nógu snemma fyrir fólk vilji ná sinni líkamsrækt áður en þau fara í vinnu klukkan 8.

Hanna Sigga segir að þær hafi ákveðið að setja upp undirskriftalista til að færa opnunartímann allavega um hálftíma því þá hafa fleiri möguleika á að mæta. „Það myndi muna miklu að færa opnunartímann til hálf sjö því núna er fólk á fullu að ná sinni líkamsrækt áður en þau fara í vinnuna,” segir Hanna Sigga.

„Það er óánægja með þetta, fólk vill ná sinni hreyfingu áður þau fara í vinnu. Það eru ekki allir sem geta sinnt sinni hreyfingu eftir vinnu og þurfa að sinna börnum og öðru þá.”

Hanna Sigga segir töluvert komið af undirskriftum á listann, sem er á kaffihúsinu Nesbæ. Ætlunin er að skila listanum inn til Fjarðabyggðar. „Það var einhver frá Eskifirði sem sá listann og þau ætla að gera annan lista þar og svo ætlum við að skila þessu inn saman,” segir Hanna Sigga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.