Nýtt stýrikerfi fyrir sundlaugina á Djúpavogi

Nýtt stýrikerfi fyrir sundlaugina í íþróttamiðstöðinni á Djúpavogi er í burðarliðnum. Með þessari aðgerð verður hægt að stýra og fylgjast með öllu sem við kemur hita, klór, pH gildum, loftgæðum ofl.


Þetta kemur fram á vefsíðu Múlaþings þar sem sem segir að síðustu misseri hefur verið unnið að greiningu á viðhaldsþörf og gerð áætlun um framkvæmdir í Múlaþingi. Meðfylgjandi eru upplýsingar um þær framkvæmdir sem hafnar eru við grunnskólann á Djúpavogi og íþróttamiðstöðina.

Hvað varðar grunnskólann segir að framkvæmdir við endurbætur á skólalóðinni eru hafnar og er 1. áfangi vel á veg kominn.

Sérkennsluaðstaða var útbúin síðastliðið haust og er það þörf viðbót sem hefur nýst vel.

Í lok síðasta árs voru gerðar úrbætur á hljóðvist í öllum eldri kennslustofum skólans með uppsetningu kerfislofta. Einnig var lýsing bætt og færð í nútímalegra horf.

Farið var í aðgerðir til að bregðast við kulda í nokkrum rýmum skólans og bætt við einangrun á lofti í elsta hluta hússins.

Ný sjálfvirk útihurð við aðalinngang skólans er komin í gagnið. Í framhaldinu verður forstofan endurskipulögð.

Byrjað er á að bæta aðgengi fyrir fatlaða og unnið er að lausnum til að hægt verði að útbúa öruggan göngustíg frá skólanum yfir að Helgafelli.

Á árinu 2022 er gert ráð fyrir að veðurkápa hússins verði endurnýjuð að miklu leyti en í því felst að skipt verður um glugga, þakskyggni og klæðningu á útveggjum.

Bætt sturtuaðstaða

Hvað íþróttamiðstöðina varðar, fyrir utan fyrrgreint stýrikerfi, segir að sturtuaðstaða hefur verið bætt og komin er lausn á skorti á heitu vatni.

Loftræstikerfi hefur verið endurnýjað að hluta og stórbætt með nýjum tæknibúnaði. Megin tilgangur þeirra framkvæmda er að bæta inniloft og vernda húsið fyrir skemmdum.

Unnið er að uppsetningu á nýju brunaviðvörunarkerfi. Það gamla hefur verið óvirkt frá 2015.

Skipt hefur verið um hluta ljósa í sundlaugarhúsi og á næsta ári er stefnt að því að skipt verði um glugga á norður og vestur hlið byggingarinnar.

Mynd: mulathing.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.