Orkumálinn 2024

Nýtt íþróttahús, Hernámshátíð og gölluð knattspyrnuhöll

Miklar umræður urðu á íbúafundi sem haldinn var á Reyðarfirði í gær. Rætt var um þörfina á nýju íþróttahúsi, óánægju með að ekki væri gert ráð fyrir því í deiliskipulagi og einnig var rætt um framtíð Hernámsdagsins. Nýstofnuð íbúasamtök Reyðarfjarðar stóðu fyrir fundinum og mættu fulltrúar bæjarstjórnar á hann til að sitja fyrir svörum. 

Íbúasamtökin kynntu á fundinum niðurstöður hugmyndavinnu sem fram fór í sumar á þeirra vegum. Tilgangur hennar var að fá hugmyndir að málefnum sem íbúasamtökin gætu beitt sér fyrir í þágu Reyðarfjarðar. 

 

Vilja nýtt íþróttahús

Öllum hugmyndunum var safnað saman og niðurstöðurnar voru kynntar á fundinum í gær. Efst á listanum var að vinna við nýtt íþróttahús færi af stað sem fyrst. Mátti skynja gremju fundargesta í garð bæjarstjórnar að ekki væri verið að gera neitt í þeim málum. Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, sagði að bæjarstjórnin væri meðvituð um þörfina á nýju íþróttahúsi.

 

„Við erum það og höfum rætt þetta í bæjarráði þegar erindi barst frá Ungmannafélaginu Val. En eins og staðan er núna þá er nýtt íþróttahús ekki á deiluskipulagi,“ sagði hún.

Hún tiltók einnig að næstu framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaáætlun væru nýir leikskólar á Reyðarfirði og á Eskifirði og svo viðgerðir á Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði.

 

Óútskýrt ryð og gallað efni.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar sagði að viðgerðirnar á Höllinni væru nauðsynlegar. Byggingin er óeinangruð og óútskýrðir ryðblettir hafa myndast á þakvirkinu. 

Hann var spurður hvort viðgerðin á höllinni væri „gálgafrestur“ fyrir byggingu nýs íþróttahús en hann þvertók fyrir það. „Við þurfum að fara í þetta viðhald sem fyrst svo ekki stafi hætta af húsinu,“ sagði Jón Björn á fundinum. 

Hann bætti við að bæjarstjórnin ætti von á skýrslu frá sérfræðingum sem rannsökuðu þakvirkið. Svo væri þarfagreining farin af stað vegna einangrunarvinnunnar. Ekki er vitað með vissu um áætluð verklok. 

 

Hernámsdagurinn verði hátið.

Á fundinum komu fulltrúar íbúasamtakanna einnig inn á það að vinna er hafin við að breyta Hernámsdeginum í hátíð. 

„Við byrjðum á því að skrifa til bæjarins til fá leyfi til að breyta deginum í hátíð. Þá gátum við sótt um styrki. Síðan funduðum við með Pétri Sörensen, forstöðumanni Safnastofnunar Fjarðabyggðar og Ara Allanssyni forstöðumanni Menningarstofu Fjarðabyggðar og við fengum mikinn stuðning frá þeim,“ sagði Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir, einn fulltrúa samtakanna, á fundinum.

Að lokum sagði hún að íbúasamtökin vilji leggja meira í daginn og gera úr honum flotta hátíð. Næsta skref yrði að auglýsa eftir fólki í Hernámshátíðarnefnd. Nefndin myndi síðan skipuleggja hátíðina með Pétri og Ara.

Einnig var komið inn á ónægju með snjómokstur bæjarins og hvernig snjónum er safnað saman á stöðum þar sem hann hindrar gönguleiðir. Kallað var eftir að það yrði skoðað. 

 

 

Góð mæting var á íbúafundinn. Mynd: BKG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.