Nýtt íþróttahús á Reyðarfirði ekki á dagskrá strax

Ungmennafélagið Valur á Reyðarfirði vill að undirbúningur nýs íþróttahúss á Reyðarfirði hefjist strax á næsta ári. Endurbætur á Fjarðabyggðarhöllinni eru í forgangi hjá sveitarfélaginu Fjarðabyggð.

 

Starfshópur, sem settur var á hóp á vegum Vals eftir aðalfund félagsins í fyrra, sendi sveitarfélaginu í sumar bréf þar sem hvatt er til þess að hönnun og teikning nýs íþróttahúss verði sett á fjárhagsáætlun næsta árs. 

Þessi hópur fundaði með bæjarstjóra og fleiri starfsmönnum Fjarðabyggðar í september 2018. Á þeim fundi var rætt um aðstöðu og viðhald á núverandi íþróttarhúsi sem og aukinn fjölda nemenda við grunnskólann. 

Aðstaða sem hentar ekki öllum

Í bréfi starfshópsins er bent á í dag sé núverandi íþróttarhús starfrækt í sex til sjö mánuði. Undir gólfinu í íþróttasalnum er sundlaug og er gólfið tekið af í kringum páska hvert ár þannig að sundkennsla tekur við í rúman mánuð að vori og einn mánuð að hausti. Með þessu fyrirkomulagi skerðist tímabilið fyrir aðra íþróttaiðkun verulega. 

Ungmennafélagið nefnir máli sínu til stuðnings að glímuiðkendur félagsins nái yfirleitt bara  einni æfingu áður en fyrsta haustmótið er haldið í þeirri grein. Það bendir líka á að aðgengi að núverandi íþróttarhúsi sé langt frá því að vera viðunandi fyrir fatlaða og henti því ekki öllum. 

Með bréfinu vill starfshópurinn bjóða fram krafta sína og veita aðstoð með hugmyndavinnu og ábendingar. Íþróttahús sé til mikilla hagsbóta fyrir alla íbúa Fjarðabyggðar en ekki bara Reyðarfirðinga. 

Ekki á fjárhagsáætlun

Í bókun frá síðasta fundi íþrótta- og tómstundarnefndar segir að ástand íþróttahússins á Reyðarfirði sé ábótavant en endurbætur séu ekki á áætlun á næstu árum. 

Endurbætur á Fjarðabyggðahöllinni séu í forgangi sem stendur en horft verði til endurbóta á íþróttahúsinu á komandi árum. Nefndin leggur til að farið verði í framtíðarskipulag skóla- og íþróttasvæðisins á Reyðarfirði á næstu misserum.

 

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.