Nýsköpunarmiðstöð lokar á Austurlandi

Starfsstöð Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Djúpavogi, þeirri einu í fjórðungnum, var lokað um síðustu mánaðarmót. Stofnunin segir að starfsstöðin hafi verið tímabundin ráðstöfun til að mæta áföllum í atvinnulífi staðarins.

Einn starfsmaður var með aðsetur á stöðinni á Djúpavogi en hann sinnti öllu Austurlandi.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir Karl Friðriksson, forstöðumaður frumkvöðla og fyrirtækja á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, að stöðin hafi verið sett upp árið 2015 að ósk heimamanna, meðal annars til að bregðast við lokun fiskvinnslu Vísis. „Aðgerðin var tímabundin og til þess ætluð að vera hvati til sóknar í atvinnulífi staðarins.“

Tveggja ára samningur hafi verið gerður milli Nýsköpunarmiðstöðvar og Austurbrúar og ráðinn starfsmaður til að þjóna fyrirtækjum og frumkvöðlum á starfssvæði Austurbrúar, frá Vopnafirði til Djúpavogs.

„Verkefnið skilaði góðum árangri að mati Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og þakkar miðstöðin heimamönnum fyrir gott samstarf. Forsendan fyrir þessari aðgerð var alfarið ákvörðun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands til að liðka tímabundið fyrir áfalli í atvinnumálum á umræddum tíma.“

Nýsköpunarmiðstöð heldur nú úti fimm starfsstöðvum á landinu: Í Reykjavík, Vestmannaeyjum, á Sauðarkróki, Ísafirði, og Akureyri.

Í svari Karls segir hann að Nýsköpunarmiðstöð muni sem endranær þjóna Austurlandi í samvinnu við Austurbrú með verkefnum og stuðningsaðgerðum og og hvetja austfirska frumkvöðla og fyrirtæki til að ná enn lengra í atvinnu- og nýsköpunarþróun.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar á Austurlandi er lokað. Árið 2009 voru opnaðar stöðvar á Sauðárkróki, Húsavík og Egilsstöðum en síðarnefndu stöðvarnar tvær voru afrakstur vinnu svokallaðrar Norðausturnefndar sem skilaði tillögum sínum ári fyrr.

Tillögur nefndarinnar voru harðlega gagnrýndar, meðal annars á þeim forsendum að opnun stöðvarinnar eystra væri ekki sértæk aðgerð því landsfjórðungurinn var þá sá eini án útibús Nýsköpunarmiðstöðvar. Stöðin starfaði í skamman tíma og er staðan nú sú að aðeins skrifstofan á Sauðárkróki er eftir af þessum þremur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.