Nýr rafstrengur lagður yfir Hofsá

Verktakar á vegum Rarik grófu í nótt nýjan rafstreng yfir Hofsá í Vopnafirði. Eldri strengur gaf sig á laugardag og var illa farinn.

Rafmagnið fór af um klukkan hálf fimm á laugardag og tók töluverðan tíma að finna bilunina, uns ljós kom að hún þar sem strengurinn liggur yfir Hofsá milli Ásbrandsstaða og Refsstaðar.

Eftir það gekk vinnan nokkuð hratt við sig. Ákveðið var að leggja nýjan streng yfir ána, frekar en gera við til bráðabirgða. Eftir að leyfi fékkst hjá landeigendum var ráðist í verkið og því lokið um klukkan eitt í nótt.

Steingrímur Jónsson hjá bilanavakt Rarik, Norðurlandi segir að vonast sé til að tekist hafi að grafa strenginn dýpra í ánna en hann var fyrir, en þó er erfitt að eiga við aðstæður ám eins og Hofsá þar sem botninn er á stöðugri hreyfingu.

Steingrímur segir strenginn hafa verið mjög illa farinn en rör utan um hann, sem átti að verja strenginn, var farið af á kafla. Eftir er að greina betur hvað varð til þess að strengurinn slitnaði en við fyrstu sýn virðist það hafa verið sambland af áralangri áraun og svo auknu álagi í ánni með leysingum í lok síðustu viku.

Strengurinn var illa farinn. Mynd: Rarik


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.