Nýr meirihluti á Vopnafirði

Betra Sigtún og B-listi Framsóknarmanna og óháðra hafa gert með sér samkomulag um meirihluta í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps út kjörtímabilið. Fyrri meirihluti Betra Sigtúns og K-lista félagshyggjufólks sprakk á sveitarstjórnarfundi á fimmtudagskvöld vegna deilna um sveitarstjórann.

Á fundinum var tekið fyrir bréf frá Sigríði Elvu Konráðsdóttur, fulltrúa K-lista, þar sem hún sagði sig frá störfum í sveitarstjórn vegna erfiðra samskipta og trúnaðarbrests við sveitarstjórann, Ólaf Áka Ragnarsson.

Samkvæmt yfirlýsingu K-lista frá í gærkvöldi hefur óánægja meðal listans með samskiptin við sveitarstjórann ágerst á kjörtímabilinu. Fulltrúar listans höfðu áður óskað eftir því við Betra Sigtún að Ólafi Áka yrði sagt upp en við því var ekki orðið.

Í loks hreppsnefndarfundarins á fimmtudag lagði Ólafur Áki fram bréf þar sem hann óskaði eftir að vera leystur frá störfum strax. Eðlilegt væri að hann hætti þar sem ekki ríki traust milli hans og meirihlutans.

Í kjölfarið var óskað eftir fundarhléi. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst töluðu þá fulltrúar Betra Sigtúns og B-lista Ólaf Áka ofan af því að segja upp. Að hléinu loknu dró hann uppsögn sína til baka.

Á föstudag sendu fulltrúar Betra Sigtúns tölvupóst til K-lista þar sem meirihlutasamstarfinu var slitið. Í bréfinu, sem birt er á vef Vopnafjarðarhrepps, segir að fulltrúar Betra Sigtúns telji rétt að slíta meirihlutasamstarfinu til að skapa vinnufrið svo hægt sé að ljúka því sem eftir er að kjörtímabilinu.

Ljúka þurfi fjárhagsáætlun og rétt sé að ljúka því hálfa ári sem eftir er af kjörtímabilinu fallist hann á að starfa áfram. Í samtali við Austurfrétt í morgun staðfesti Ólafur Áki að hann myndi vinna með nýjum meirihluta.

Á laugardagsmorgun funduðu fulltrúar B-lista og Betra Sigtúns og gengu frá meirihlutasamstarfinu. Gert er ráð fyrir að nýr meirihluti taki formlega við á sveitastjórnarfundi fimmtudaginn 14. desember. Þar verður fjárhagsáætlun næsta árs afgreidd.

„Það er von okkar sem stöndum að nýstofnuðum meirihluta að með þessu sé hægt að ljúka síðustu sex mánuðum kjörtímabilsins án þess að valda sundrung og upplausn í starfsemi sveitarfélagsins.

Yfir stendur vinna við gerð fjárhagsáætlunar og að henni lokinni taka við hefðbundin störf meðal annars við að framfylgja því sem þar er lagt til,“ segir í yfirlýsingu nýs meirihluta sem undirrituð er af Stefáni Grími Rafnssyni, oddvita hreppsins og Betra Sigtúns.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.