Nýr matarvagn nálægt Stuðlagili nýtur vinsælda

„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar þessar þrjár vikur sem við höfum haft opið,“ segir Marteinn Óli Aðalsteinsson, bóndi að Klausturseli á Efri-Jökuldal.

Hjónakornin að Klausturseli keyptu nýverið matarvagn og hófu í byrjun júlí að selja samlokur og pylsur til þeirra hundruða ferðalanga sem sækja Stuðlagil heim hvern einasta dag yfir sumartímann. Sá matarvagn aðeins annar af tveimur stöðum sem bjóða gestum upp á góðgæti í gogginn á þessum stað og ekki vanþörf á segir Marteinn.

„Alls ekki. Næsti veitingastaður við Stuðlagil er Skjöldólfstaðir og það er spottakorn þangað héðan frá. Sérstaklega fyrir þá sem leggja hér við brúna hjá okkur og ganga að þá eru allmargir kílómetrar að gilinu sjálfu og eðli máls samkvæmt verður fólk svangt á þeirri löngu leið.“

Marteinn segir töluvert skrifræði og tími því samfara að setja upp matarvagn en næsta skref sé að koma upp klósettaðstöðu en mikið sé um að ferðafólk á svæðinu forvitnist um þá aðstöðu.

„Það er klósettaðstaða hér á Grund sem er hvað næst gilinu sjálfu en við höfum orðið töluvert vör við fyrirspurnir um slíka aðstöðu hér hjá okkur og við erum að vinna að því þessa dagana. Það hins vegar meira en að segja að koma upp slíkri aðstöðu. Það kostar alls kyns vesen en við auðvitað viljum að gestum líði vel og fái þjónustu og það verður komið á koppinn innan tíðar.“

Mynd: Studlagil_studlafoss@Instagram

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.