Orkumálinn 2024

Nýr eigandi að MT bókhaldi

Anna Dóra Helgadóttir hefur keypt allt hlutafé í MT bókhaldi af Sigurði Ragnarssyni. Sigurður mun áfram vinna hjá félaginu en Anna Dóra mun fljótlega taka við stjórn þess. Þau segja nýjar tæknilausnir bjóða upp á að sinna bókhaldsþjónustu frá Egilsstöðum fyrir allt landið.

„Ég tek við góðu og vel reknu fyrirtæki sem ég ætla að reka áfram með hans aðstoð. Við verðum þrjú á skrifstofunni á Egilsstöðum en erum síðan að leita að fólki á fleiri staði,“ segir Anna Dóra.

„Til að byrja með verða ekki miklar breytingar þótt ég muni hverfa úr því að verða andlitið yfir í að Anna Dóra stýri þessu algjörlega,“ segir Sigurður.

Fyrirtækið verður 20 ára á næsta ári. Það var upphaflega stofnað sem Mánatölvur utan um tölvukennslu en þróaðist síðan yfir í að verða hrein bókhaldsþjónusta. Samhliða því hefur vörumerkið MT bókhald tekið yfir.

Þau segja breytingar í bókhaldsþjónustu, með aukinni tækni, vera eitt grundvallaratriðunum fyrir viðskiptunum.

„Það er komið mikið af rafrænum lausnum og umhverfið er þannig að við getum sótt okkur verkefni hvert sem er. Fyrirtæki Önnu Dóru hefur þannig fengið verkefni á Vopnafirði, Suðurlandi og í Reykjavík.

Þess vegna ég treysti Önnu Dóru betur til að leiða fyrirtækið inn í þá tíma. Ég held að þetta sé góður tími til að lyfta þessu upp á hærra plan – eins og skáldið sagði,“ segir Sigurður.

„Við erum alltaf að fara lengra og lengra í rafrænu bókhaldi, hvað varðar geymslu á göngum og svo framvegis. Það verður alltaf minna sem senda þarf útprentað á milli. Meðan hið opinbera samþykkir það þá er haldið lengra,“ segir Anna Dóra.

Anna Dóra hefur síðustu tvö ár rekið bókhalds- og ráðgjafarþjónustu undir merkjum Notio á næstu skrifstofu við MT bókhald. „Það félag verður sameinað undir merkjum MT bókhalds. Sú þjónusta styrkist enn frekar með þessum kaupum, enda hafa félögin bæði mjög góða viðskiptavini,“ segir hún að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.