Nýr bátur til Stöðvarfjarðar

Nýr veiðibátur, Hafrafell SU 65, er væntanlegur til heimahafnar á Stöðvarfirði á næstu dögum í fyrsta sinn. Báturinn var áður gerður út frá Sandgerði og bar þá nafnið Hulda GK.

Báturinn er í eigu Háaxlar ehf. félags sem Kjartan Reynisson, útgerðarstjóri Loðnuvinnslunnar á meirihluta í á móti Loðnuvinnslunni. Hafrafellið verður fyrsti báturinn sem félagið gerir út.

Báturinn er keyptur án kvóta en fyrir á félagið 245 tonna kvóta sem báturinn fær. Í samtali við Austurfrétt sagði Kjartan að verið væri að finna bátnum fleiri verkefni, en vonir væru meðal annars bundnar við að geta sótt um byggðakvóta.

Fjórir eru í áhöfn Hafrafellsins og fylgja áhafnarmeðlimir bátnum eftir til nýrra eigenda.

Hafrafellið er beitingavélabátur, smíðaður hjá Seig árið 2016. Hann er um margt líkur Sandfelli SU sem Loðnuvinnslan hefur gert út með góðum árangri, en heldur styttri, 12 metra langur og tæp 30 brúttótonn.

Eins og Aflafréttir hafa áður greint frá var báturinn afhentur nýjum eigendum 8. mars síðastliðinn og hefur hann verið á hægri ferð til austurs síðan. Síðustu daga hefur hann verið að veiðum á Þistilfirði en vonast er til að hann komi austur til Stöðvarfjarðar á næstu dögum þegar veður leyfir.

Báturinn sem nú heitir Hafrafell SU í höfn í Neskaupstað síðasta haust. Mynd: Kjartan Reynisson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.