Nýir eigendur tryggja áframhaldandi rekstur Kauptúns

Óvissu um framtíð dagvöruverslunar á Vopnafirði hefur verið eytt eftir að Berghildur Fanney Oddsson Hauksdóttir og Eyjólfur Sigurðsson keyptu verslunina Kauptún sem annars hefði lokað eftir daginn í dag. Svo verður ekki.

„Það verður lokað klukkan fjögur í dag vegna vörutalningar. Síðan eigum við von á fyrstu sendingunum í fyrramálið og opnum þá,“ segir Berghildur Fanney.

Árni Róbertsson og fjölskylda hans stofnuðu Kauptún árið 1988 og hafa rekið síðan þá. Í vor ákvað hann að láta staðar numið af persónulegum ástæðum, sagði upp starfsfólki og auglýsti reksturinn til sölu. Enginn kaupandi kom fram og því var útlit fyrir að eftir daginn í dag yrði engin dagvöruverslun á Vopnafirði.

Engar breytingar strax

Á laugardag var hins vegar tilkynnt að Berghildur Fanney og Eyjólfur hefðu keypt húsnæði Kauptúns og reksturinn. „Við ætlum að halda rekstrinum óbreyttum fyrst um sinn. Aðalmálið er að halda búðinni opinni þannig að fólk þurfi ekki að keyra 150 km eftir mjólk. Auðvitað fylgja alltaf breytingar nýjum aðilum en þær koma með tímanum.“

Kauptúnsnafnið verður þannig áfram á versluninni. „Við höfum að minnsta kosti ekki hugsað um annað,“ segir Berghildur Fanney.

Harður markaður

Segja má að þrjár keðjur, Hagar, Kaupáss og Samkaup ráði dagvöruverslunarmarkaðinum hérlendis. Samkvæmt gögnum frá Alþingi fyrir árið 2014 voru Hagar, sem reka Bónus, stærstir með um 50% markaðshlutdeild, Kaupáss, sem rekur Krónuna, með 20% og Samkaup, sem rekur Nettó og Kjörbúðirnar, með 15%.

Í sama svari kemur fram að aðeins Samkaup sé með rekstur á Norðausturhorninu, sem Vopnafjörður fellur undir og markaðshlutdeild fyrirtækisins þar sé 83-84%. Þegar horft er til Austurlands telst verslun Bónuss á Egilsstöðum ein og sér vera með 40% markaðshlutdeild, verslun Krónunnar á Reyðarfirði 20% og verslanir Samkaupa 40%.

Dagvöruverslunum í eigu smærri fyrirtækja eða einyrkja hefur fækkað á síðustu árum og hafa stjórnendur þeirra sagt að erfitt sé að standa í samkeppni um verð við stærri aðilana. Berghildur Fanney segir að hún og Eyjólfur muni reka Kauptún með óbreyttum hætti sem einyrkjar að minnsta kosti fyrst í stað.

„Ég ætla ekki að halda því fram að þetta verði auðvelt en búðin hér hefur gengið. Árni hættir ekki vegna slaks árangur heldur af persónulegum ástæðum. Hann er vinur okkar og verður okkur innan handar til að byrja með.

Við teljum að hér sé hægt að reka búð – og reyndar erum við á þeirri skoðun að hér verði að vera búð því hér búa 650 manns.

Það virtist enginn ætla að prufa að taka við. Enginn gaf sig fram, stóru keðjurnar sýndu lítinn áhuga og ætluðu alls ekki að kaupa. Hreppurinn skoðaði málið en ég er þeirrar skoðunar að hann eigi ekki að standa í verslunarrekstri. Þá var ekki annað eftir en að loka.

Ég benti fólki á að hér væri atvinnutækifæri og hvatti það til að prufa. En fyrst enginn gaf sig fram og ef ég vildi að aðrir prófuðu þá fannst mér vera komið að mér að láta reyna,“ segir Berghildur Fanney.

Hún segir Vopnfirðinga vera ánægða með að tryggt sé að áfram verði dagvöruverslun á staðnum. „Mér finnst viðbrögðin hafa verið ofsalega góð. Fólk tekur í höndina á mér og þakkar mér fyrir að þora að fara út í þetta. Íbúar voru orðnir uggandi um hvert þetta stefndi. Eflaust velta þeir fyrir sér hvernig þetta muni ganga, eins og við öll, en til þessa höfum við ekkert fengið nema góðar óskir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.